145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[14:59]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það hafi verið haft til grundvallar í samningu þessa frumvarps að koma fram með breytingar sem nauðsynlegar væru til þess að geta hnikað þessu máli áfram. Ég efast ekkert um að í lögum víða þekkjum við alls konar hugtök og orðalag sem eflaust mun breytast í tímans rás. Það kann að vera að þessi vinna sem hér hefur farið fram, og þessi fókus sem hefur verið settur á þetta núna, kalli á það að menn gangi lengra í þeim efnum. En ég hef að minnsta kosti, frá því ég kom að þessu máli, lagt áherslu á að við reyndum að koma því áfram sem við höfum stjórn á þannig að við séum að gera þetta rétt og fullgildum þetta með réttum hætti, en í kjölfarið kann vel að vera að ástæða sé til að ganga lengra. Um það vil ég ekkert segja á þessu stigi. En ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta frumvarp fái meðferð í nefndinni.