145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra þetta svar. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að breyta verði þessum skilgreiningum þó svo að það verði kannski ekki gert í þessari lotu. Hins vegar er það engin spurning að það verður að breyta hugtakanotkun til þess að orðanotkunin sé hreinlega í samræmi við það sem samningurinn boðar, ef svo má segja. Ég vil þá bara vísa því til hv. allsherjar- og menntamálanefndar, sem fær þetta mál til skoðunar, að hafa þetta í huga og eins til hæstv. ráðherra í hennar vinnu áfram í ráðuneytinu. Þetta er atriði sem ég held að sé mjög nauðsynlegt að halda til haga til þess að við séum ekki með misræmi annars vegar í alþjóðasamningi og hins vegar í íslenskum lögum.

Annað sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra út í varðar þýðingu á sáttmálanum. Bent er á það í umsögn rannsóknarseturs í fötlunarfræðum að ágallar séu á núverandi þýðingu og þær séu hreinlega rangar á köflum. Til dæmis er bent á að í 13. gr. sé talað um „aðgengi að réttarkerfinu“, sem er þýðing á enska heitinu „access to justice“, en rannsóknarsetrið bendir á að réttari þýðing væri „aðgengi að réttlæti“.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún líti svo á að komin sé fullnaðar- eða lokaþýðing á sáttmálanum yfir á íslensku, eða hvort taka eigi (Forseti hringir.) einn snúning á því í viðbót (Forseti hringir.) til þess að fá örugglega fram réttan skilning á sáttmálanum.