145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:33]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fagna því sem hv. þingmaður segir og held að við séum alveg sammála um þessi mál. Þegar sagt er að NPA feli í sér umframkostnað hljóta menn að vera að segja að það fólk sem fær NPA ætti að vera í annarri þjónustu sem er ódýrari eða að ef fólkið væri ekki með NPA-samning væri það í ódýrari þjónustu og þess vegna sé NPA umframkostnaður. Ég held að fólk verði að átta sig á því að þetta er ekki svoleiðis. NPA er fyllilega samkeppnishæft þjónustuform þegar kemur að kostnaði þannig að það er villandi að tala um umframkostnað. Þetta er einfaldlega spurning um það hvort við ætlum að þjónusta þetta fólk eða ekki og þá er eitthvert annað þjónustuform ekki mikið ódýrara. Þegar kemur að ábatanum sem felst í NPA-þjónustuforminu hefur NPA vinninginn. Ég held að óhikað sé hægt að segja það.

Yfirfærsla málaflokksins til sveitarfélaganna var gott skref þótt fara þurfi í endurmat á því hvernig var gefið í því skrefi öllu saman og hugsanlega skoða verkaskiptinguna. En það er að koma upp á yfirborðið að þetta fólk hefur ekki verið þjónustað. Það hefur í mýmörgum tilvikum verið þjónustað af ættingjum sínum. Það er það sem er að koma upp á yfirborðið. Nú er þetta pólitískur veruleiki sem blasir við okkur á þingi og víðar og pólitíska spurningin sem blasir við er: Ætlum við að hafa það þannig áfram? Er það pólitískt mögulegt og er ábati af því? Ætlum við ekki (Forseti hringir.) að blása lífi og krafti í þjónustuna? Þar er NPA eitt besta þjónustuformið sem völ er á vegna þess í því felst svo mikill ábati.