145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

157. mál
[15:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála þingmanninum um ábatann sem og þau auknu lífsgæði sem fólk öðlast með nærþjónustu. Ég er eðlilega sammála því hafandi setið bæði fjármálaráðstefnu sveitarfélaga á dögunum og heimsótt sveitarfélög, ekki aðeins í eigin kjördæmi heldur annars staðar, og svo fáum við til okkar gesti í fjárlaganefnd þar sem þetta kemur fram. Það er ekki endilega að það hafi beinlínis verið gefið vitlaust heldur er þetta akkúrat eins og þingmaðurinn sagði, við erum með marga einstaklinga sem hafa verið þjónustaðir af ættingjum sínum og hafa jafnvel aldrei notið opinbers styrks, fjölskyldurnar hafa bara séð um þetta sjálfar. Svo kemur að því að foreldrar eða aðrir eru ekki færir um að sjá um börnin lengur sökum aldurs eða annars og þá kemur þetta inn á borð sveitarfélaganna og það þarf meðal annars að taka til endurskoðunar. Málaflokkurinn var kannski vanfjármagnaður að því leyti að ekki var allt uppi á yfirborðinu. Við þurfum að horfa til þess til langs tíma af því að við erum með börn og ungt fólk sem var innan ákveðins ramma og svo þegar einstaklingarnir urðu fullorðnir fóru þeir í annars konar ramma hvað varðar fjárveitingu. Ég tek undir að við þurfum að hafa fjölbreytt úrræði, alveg sama hvort það heitir NPA eða eitthvað annað þurfum við fyrst og fremst að hafa fjölbreytt úrræði þannig að fólk geti valið um þjónustu til þess að auka lífsgæði sín. Mér finnst vera númer eitt, tvö og þrjú að eitthvert jafnræði sé til lífsins og tilverunnar gagnvart ófötluðum.