145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[15:51]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir þessu máli í þriðja skipti. Við í þingflokki Bjartrar framtíðar þrjóskumst við og teljum það jafnvel mikilvægara en nokkru sinni að mótuð verði stefna um það, rökstudd stefna, byggð á ákveðnum kröfum um rökstuðning, hver eigi að vera gjaldmiðill þjóðarinnar til framtíðar og hvernig eigi að ná tilteknum markmiðum með þeim gjaldmiðli. Málið hefur alltaf fengið mjög jákvæðar umsagnir hjá umsagnaraðilum sem hafa komið fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í umfjöllun um þetta mál, sem hefur þó ekki verið mjög mikil, en umsagnirnar hafa verið jákvæðar hjá aðilum atvinnulífsins og fleirum.

Það fer vel á því að ég mæli fyrir þessu máli í dag á sjö ára afmæli hrunsins. Þetta er ekki beint hátíðisdagur, 6. október, en er orðinn eins konar áminningardagur, dagur upprifjunar, dagurinn sem þáverandi forsætisráðherra þjóðarinnar bað almættið um að blessa okkur. Það var meðal annars vegna þess að ekki var bara bankakerfið við það að hrynja á þeim degi, heldur hrundi gengi gjaldmiðilsins líka. Eins og margoft hefur verið bent á af hagfræðingum og öðrum þá var hrun efnahagslífs Íslendinga, hrun bankakerfisins, líka hrun gjaldmiðilsins. Þess vegna var þetta bankakreppa og gjaldmiðilskreppa. Gjaldmiðilskreppan birtist í því að hér hafði flætt inn mjög mikið af fjármagni. Krónan hafði verið allt of sterk um langt skeið, hér var byggð upp gerviveröld lífsgæða þar sem útlönd voru á helmings afslætti. Þetta stóð ekki á traustum grunni. Við blasti, ef ekki hefðu verið sett á gjaldeyrishöft, að allt þetta fjármagn mundi streyma út úr landinu og krónan hrynja niður úr gólfinu með tilheyrandi verðbólgu og skelfilegum afleiðingum fyrir lífskjör fólks og við fengum að stórum hluta til að finna til þess tevatns. Ef ekki hefðu verið sett gjaldeyrishöft þá hefði þetta orðið mun verra.

Gjaldeyrishöftin sem við búum enn þá við og hafa verið hert eftir að þetta gerðist ættu að vera augljós dómur og vitnisburður um það að krónan er, svo ég leyfi mér að segja það, í öllu falli ekki gallalaus og líklega meira en það. Það eru veruleg áhöld um að króna, a.m.k. óheft, henti þessari litlu þjóð og okkar viðskiptamódeli, okkar kringumstæðum. Svo afdráttarlaust hefur verið að orði kveðið af hálfu seðlabankastjóra að hann hefur sagt, ég man nú ekki hvernig hann sagði það nákvæmlega, en hann sagði það einhvern tímann í grein að tilraunin sem var gerð upp úr aldamótum um að hafa hér frjálsa fljótandi krónu í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, mistókst.

Gefin var út í september 2012 að gefnu tilefni, vegna hrunsins, vegna þessarar gjaldmiðilskreppu, mjög yfirgripsmikil skýrsla Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum. Þar er niðurstaðan einfaldlega sú að tveir valkostir séu raunhæfir og að pólitíkin verði að taka afstöðu til þeirra, það sé annaðhvort evra með samningi við Evrópusambandið eða króna í einhvers konar höftum. Það er veruleikinn sem blasir við. Þessi skýrsla Seðlabankans er ásamt öðru kveikjan að þingsályktunartillögu okkar. Við viljum að Alþingi Íslendinga taki skýrsluna alvarlega. Hún er vönduð, yfirgripsmikil og mjög góð greining á því hvað er að í gengis- og gjaldmiðilsmálum á Íslandi.

Nú þurfum við að ákveða hvernig á þetta að vera til frambúðar. Ég held að það sé gríðarlega aðkallandi og kannski er ágætt tóm til þess núna. Það er viðsnúningur í ríkisfjármálunum. Við eigum að geta rætt þessi mál. En við megum ekki vera kærulaus. Það er ýmis teikn á lofti og talað um að hætta sé á ofþenslu. Við sjáum vísbendingar um að sígild, íslensk hagstjórnarmistök kunni að vera í uppsiglingu. Það á að lækka tekjuskatta en keyra meira á neyslusköttum, sýnist mér. Það var gert mjög mikið í aðdraganda 2007 og er ekki sjálfbær stefna í ríkisfjármálum. Við byggjum góða afkomu í viðskiptum við útlönd aðallega á því að það er uppgangur í túrisma. Hversu sjálfbær er sá uppgangur? Hversu varanlegur? Erum við að fjárfesta í innviðum í ferðaþjónustu til þess að tryggja að hann verði varanlegur? Er þetta mögulega klassíska íslenska sagan um einhæfni sem blasir við okkur? Það eru mjög miklar launahækkanir sem eru byggðar á miklu óþoli á vinnumarkaði, skorti á trausti, sem aftur má rekja til þess að grundvöllur efnahagslífsins hefur ekki verið traustur. Gjaldmiðillinn hrynur eins og hann gerði og hann er í höftum og meðal annars vegna þess hefur verið erfitt að skapa samtal á vinnumarkaði um langtímamarkmið og um stöðugleika. Það á að efna til umfangsmikilla stóriðjuframkvæmda sem hafa ruðningsáhrif í þessu litla hagkerfi og það gerir að verkum að sveitarstjórnir, þetta segir bara í forsendum fjárlagafrumvarpsins, verða að halda að sér höndum þegar kemur að því að fjárfesta í innviðum. Þetta er meðal annars út af því að við erum með þetta litla hagkerfi krónunnar.

Við ætlum að stíga stór skref í því að aflétta fjármagnshöftum með því að gera í raun og veru upptækar um 300, 400, 500 milljarða af eigum útlendinga í landinu. Það eru kröfuhafar, erlendir kröfuhafar, sem eiga kröfur í gömlu bú bankanna. Veruleiki okkar með íslensku krónuna er sem sagt þannig að það er ekki til í dæminu, það er ekki séns, að þessir aðilar geti flutt það fjármagn úr landi. Íslenska krónan höndlar ekki fjármagnsflutninga af þessu tagi.

Það er svolítið athyglisvert að þetta er viðurkennt. Útlendingarnir eða erlendu kröfuhafarnir eru reiðubúnir að láta af þessum kröfum vegna þess að þeir sjá þetta líka. Þetta eru í raun og veru bara verðlausir pappírar vegna þess að þetta eru íslenskar krónur. Það er ekki hægt að flytja þær út úr hagkerfinu. Hversu órækur vitnisburður er það í raun og veru um veruleika íslensku krónunnar að hún höndlar ekki fjármagnsflutninga milli landa í neinum mæli? Það verður veruleikinn til allrar framtíðar ef við ætlum að hafa krónu. Spurningin sem blasir við er þá einfaldlega sú: Sættum við okkur við það? Fjármagnsflutningar geta verið af alls konar toga. Fyrirtæki, sveitarfélög, ríkisvaldið þurfa til dæmis að greiða af lánum. Það getur haft áhrif á gengið. Viðskiptajöfnuður við útlönd getur snúist við og þar fram eftir götunum. Við erum einfaldlega með gjaldmiðil sem höndlar illa frjálsa alþjóðlega fjármagnsflutninga . Ég held að það sé augljóst.

Á þessum tímapunkti þegar við ætlum að stíga veigamikil skref í að aflétta höftum blasir auðvitað við spurningin um hvaða framtíð á að taka við eftir þær aðgerðir allar. Verður höftum aflétt þó svo að vandi gömlu búanna verði leystur? Blasir þá allt í einu við veruleiki þar sem við getum haft frjálsa íslenska krónu með frjálsum fjármagnsflutningum? Hefur einhver trú á því? Ef svo er ekki, verðum við þá ekki að íhuga aðra kosti?

Með þessari tillögu erum við ekki að segja að við eigum að taka upp evru. Við í þingflokki Bjartrar framtíðar erum reyndar þeirrar skoðunar að það væri góð leið — þó ekki gallalaus, aldrei gallalaus — og áhættuminni og betri leið fyrir íslenskt efnahagslíf að taka upp evru en að hafa krónu. Ég lít svo á að þar með sé ég sammála greiningu Seðlabankans frá 2012, vegna þess að ég túlkaði þá greiningu þannig að evran væri ekki gallalaus, en betri leið en krónan. Í sjálfu sér erum við einfaldlega að fara fram á opna umræðu um það hvernig fyrirkomulag gjaldmiðilsmála á að vera í framtíðinni.

Við leggjum til að tekin verði afstaða til þess hver framtíðargjaldmiðillinn á að vera á grunni nokkurra skilyrða. Við viljum, alveg sama hvaða gjaldmiðill verður ákveðinn, að notkun gjaldmiðilsins efli traust á íslensku efnahagslífi til langs tíma litið. Ég tel að halda megi því fram að krónan, að minnsta kosti eins og hún hefur verið notuð af okkur, hafi ekki eflt það traust. Ég held að við sjáum það til dæmis í ástandi á vinnumarkaði eins og ég ræddi hér áðan stuttlega.

Það ríkir ekki traust. Íslenskt efnahagslíf hefur verið mjög sveiflukennt sem birtist oft í mjög undarlegum sveiflum á einkaneyslu, eins og rakið er í greiningu Seðlabankans, og fólk virðist ekki treysta því að stöðugleiki skapist til langs tíma. Ég held að þess vegna sé farið í svona að mörgu leyti slæma kjarasamninga á vinnumarkaði, það ríkir ekki traust. Það ríkir ekki traust á grundvellinum. Þannig að við segjum: Notkun gjaldmiðilsins verður að efla traust. Það verður að leggja eitthvað verulega til málanna í því markmiði.

Við viljum að notkun gjaldmiðilsins auki möguleika á stöðugu verðlagi, lægri vöxtum og betri lífskjörum. Það er mikið rætt um húsnæðismál um þessar mundir. Það var meðal annars rætt mjög mikið í kjördæmavikunni í suðvesturkjördæmi með sveitarstjórnarmönnum. Þeir verða mjög varir við að það vantar íbúðir fyrir ungt fólk. Við erum oft í þessum sal að ræða alls konar hluti, hvernig við eigum að auka framboð lítilla íbúða eða auka framboð íbúða yfir höfuð. Það liggur alveg fyrir að of lítið framboð er af íbúðum miðað við fólksfjöldaþróun. Það eru alls konar hugmyndir nefndar, sú síðasta var að ríkisvaldið ætti einfaldlega að fara í það að byggja þessar íbúðir.

Ég held að mjög mörgum sé ljóst, að minnsta kosti er mörgum sveitarstjórnarmönnum það ljóst og ég held mörgum þingmönnum líka að hinn hái fjármagnskostnaður á Íslandi er auðvitað ein stærsta hindrunin á þessum vegi að reyna að byggja upp framboð á leiguíbúðum, litlum íbúðum og þar fram eftir götunum. Háir vextir. Það er of mikil áhætta í íslensku efnahagslífi og við höldum því fram að það sé meðal annars út af gjaldmiðlinum og það þurfi í öllu falli að ræða það. Og ætlum við einhvern tímann að reyna að koma á húsnæðislánakerfi á Íslandi þar sem vextir eru kannski 1–2%? Er það út úr myndinni? Ef það er ekki út úr myndinni, hvernig ætlum við þá að gera það? Er ekki gjaldmiðillinn augljóslega eitthvað sem þarf að ræða í því samhengi? Eða eru 1–2% vextir bara ekkert inni í myndinni og erum við búin að sætta okkur við það? Þetta er auðvitað grundvallarspurning.

Við viljum að gjaldmiðillinn auki frelsi í viðskiptum við útlönd. Við búum ekki við frelsi í viðskiptum við útlönd. Þótt við séum að stíga skref við afnám hafta, þá held ég að það sé að mörgu leyti tálsýn að við muni blasa óhindraðir fjármagnsflutningar að afloknum þeim skrefum. Ef við viljum frelsi í viðskiptum við útlönd þá held ég að við þurfum að ræða hvernig fyrirkomulag gjaldeyrismála á að vera.

Við viljum að gjaldmiðillinn henti íslensku atvinnulífi, hafi góð áhrif á atvinnustig og útflutning. Við höldum því fram að stöðugleiki og fyrirsjáanleiki í umgjörð gjaldmiðilsmála muni hafa þau áhrif að atvinnulífið blómstri og fjölbreytni aukist. Þetta er líka ágætlega rakið í greiningu Seðlabankans.

Við viljum að gjaldmiðillinn auðveldi hagstjórn, minnki áhættu í íslensku efnahagslífi og sé áhættuminni en aðrir valkostir. Ég vil leggja skýra áherslu á þetta. Við erum ekki að tala um að það sé til eitthvað sem er algjörlega gallalaus valkostur. Allt hefur galla. Þetta er spurning um hvað hefur minnstu gallana.

Svo viljum við að gjaldmiðilsstefnan sé vel framkvæmanleg með hliðsjón af öðrum samhliða aðgerðum sem þörf er á á sviði ríkisfjármála, peningamála og í (Forseti hringir.) samningum við önnur lönd. Það er kannski ein stærsta hindrunin í átt að því að taka upp evru að ríkisstjórnin virðist hafa bitið það í sig að það sé ekki skynsamlegt að ganga í ESB.