145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:06]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka flutningsmönnum fyrir þessa ágætu tillögu sem ég held að sé bæði tímabær og þörf. Það er hverri þjóð hollt að ræða gjaldmiðilinn sinn. Það er gott mál. Ég vildi bara nota tækifærið og þakka flutningsmanni, hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni, fyrir að kynna þetta.

Það er kannski til nokkuð mikils mælst að gjaldmiðill geti eflt traust á efnahagslífi lands. Gjaldmiðlar gera ekki hluti, þeir eru tæki. Við sjáum til dæmis í Grikklandi, sem notar mjög traustan gjaldmiðil, evruna, að hún hefur ekki skapað neitt sérstakt traust í kringum það sem er að gerast þar. Þvert á móti hefur verið skilningur á því að evran og aðild Grikklands að evrusvæðinu hafi frekar gert vandann erfiðari viðureignar en ella. Svipaðir hlutir gerast á Kýpur og jafnvel á Spáni þar sem setja þurfti höft á úttekt af bankabókum. Menn máttu ekki taka nema ákveðinn fjölda evra út af bankabókinni sinni á Spáni. Þetta gerist með mynt sem væntanlega er fjallað um sem raunverulegan valkost fyrir Ísland.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Er hann ekki sammála því að það eina sem getur raunverulega eflt traust á íslensku hagkerfi er það að við hegðum okkur skynsamlega? Að við tökum góðar ákvarðanir í því sem við erum að gera í okkar viðskiptum og að við sýnum ráðdeild og hagsýni í öllum aðgerðum alveg sama hver gjaldmiðillinn er? Það er eiginlega alveg sama hvaða gjaldmiðil við hefðum, bandaríkjadollara, evru, krónu eða einhvern annan, ef við förum illa að ráði okkar í viðskiptum eða tökum óæskilega áhættu þá erum við rúin trausti í viðskiptum.