145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:08]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka spurninguna. Ég held að það sé mjög mikilvægt þegar er talað um þessi mál, gjaldmiðilsmál, að horfast í augu við það að ekkert efnahagslíf er nokkru sinni gallalaust. Gjaldmiðillinn er, held ég, aldrei eina orsök efnahagsófara eða eina orsök mikils uppgangs. Ég held að sagan sem Eystrasaltslöndin hafa að segja af upptöku evru sé kannski talsvert öðruvísi en sagan sem er sögð á Grikklandi. En samt vilja Grikkir hafa evru.

Það er alveg rétt að gjaldmiðill er tól, það er tæki, en tæki skiptir máli. Ef þú ætlar að negla nagla þá skiptir máli að þú sért með hamar en ekki skrúfjárn, tækið verður að henta. Auðvitað skiptir máli að þú hagir þér vel með þetta tæki. En við erum alltaf að tala um það. Ég lít svo á að þegar við erum að tala um valkosti í gjaldmiðilsmálum þá séum við einfaldlega að velta því fyrir okkur hvaða tæki henti íslensku hagkerfi best. Ég held að sé allt of mikil afstæðishyggja að segja að öll tækin séu eins, að evra sem er myntsamstarf Evrópusambandsríkjanna, sem meginhluti okkar útflutnings fer til — mjög stórt myntsvæði, stutt af Evrópska seðlabankanum, ein aðalmynt heimsins — sé bara sama tæki og íslenska krónan sem er agnarsmár gjaldmiðill. Það mætti halda því fram með rökum að hann sé sá minnsti í heimi og án fordæma að svona lítil þjóð hafi sjálfstæðan gjaldmiðil með þessum hætti.

Já, ræðum það. Eru þessi tól eins? Eru þau jafnhliða þegar kemur að okkur? Og getum við náð sömu markmiðum algjörlega með báðum gjaldmiðlum?