145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:36]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir áhugaverða ræðu þar sem hún kom víða við. Ég vil fyrir það fyrsta taka undir orð hennar um laun lögreglumanna og annarra, mér finnst að við eigum einmitt að fylgjast með því að greiða þessum stéttum mannsæmandi laun, sérstaklega þeim sem hafa ekki verkfallsrétt. Mér finnst til háborinnar skammar hvað þeir hafa þurft að bíða lengi eftir að fá úrlausn sinna mála.

Varðandi það að núna sér maður að kaupmáttur á Íslandi er að vaxa og allir atvinnurekendur verða skelfingu lostnir þá held ég að það sé ekki sama vandamál og var kannski hér áður. Mér sýnist að stór hluti fólks, ég er alls ekki að segja allir, sem fær aukinn kaupmátt noti hann til þess að lækka skuldir sínar hraðar. Það er gott. Skuldir heimilanna hafa verið að lækka hratt á Íslandi, m.a. vegna þess að þegar fólk fær aukinn kaupmátt sér það að mikilvægt er að vera minna skuldugur. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þetta á ekki við um alla, en stærri hóp en fyrir kreppu. Menn hafa lært mikið af því sem hér hefur gengið á. Það er skelfilegt að vera skuldsettur þegar eitthvað bjátar á í hagkerfinu.

Spurningin sem mig langaði til að beina til hv. þingmanns var þetta með skjólið í evrunni eða stórum gjaldmiðli eða myntbandalagi. Hefur hv. þingmaður fylgst með skjólinu sem Grikkjum hefur boðist í þessu samstarfi, myntbandalagi? Þeim var eflaust lofað að allt mundi ganga vel bara ef þeir tækju upp evruna, þá fengju þeir lága vexti og mikið öryggi og mikið skjól. Mér sýnist eins og þarna ríki sultur og seyra. Þeir hafa fengið að takast á við sína erfiðleika sjálfir, selja ríkiseignir, laun hafa verið lækkuð um tugi prósenta, skuldirnar hafa ekki verið lækkaðar. Það er ekki þannig að evran hafi lækkað neitt í Grikklandi, heimilin skulda áfram það sem þau skulda en laun hafa lækkað, þau voru handvirkt lækkuð og margir hafa misst vinnuna. Hvernig getur það verið betra þegar eitthvað bjátar á að gera þetta með þessum hætti? Bitnar þetta ekki einmitt á almúganum?