145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:38]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fara að halda varnarræðu fyrir því hvernig brugðist hefur verið við þeim vanda sem hefur komið upp í Grikklandi. Hins vegar er það ljóst að Grikkir ráku ríkisbúskap sinn og fjármál ekki mjög skynsamlega. Þeir voru mjög skuldugir fyrir. Þar eru alls konar hópar, einhverjar eyjar sem borga ekki skatta og hinir stóru útgerðarmenn sem eru þá aðallega með kaupskip hafa verið meira og minna skattlausir. Þannig að ríkisfjármálin í Grikklandi voru ekki í góðum gír. Mér finnst líka svolítið athyglisvert að Grikkir í þeim vondu efnahagsörðugleikum sem þeir eru í kjósa enn þá að vera innan myntsamstarfsins. Ef þeir hefðu ekki verið innan þess hefðu þeir fellt drökmuna það er alveg ljóst. En þá hefði almenningur í landinu líka tapað vegna þess að þá hefði orðið eignatilfærsla eins og verður með gengislækkunum.

Ég er að tala um að ég held að það sé betra að hafa aga af því að vera í stóru myntkerfi en í því litla myntkerfi sem við erum í. En ég ætla mér ekki þá dul að fara að verja aðgerðir Evrópska seðlabankans eða Evrópusambandsins. (Forseti hringir.) Mér finnst það bara ekki hluti af þessari umræðu, virðulegi forseti.