145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:51]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur verið mjög fróðlegt að hlusta á þessa umræðu. Ég er einn af flutningsmönnum tillögunnar og tel hana mjög þarfa. Eins og komið hefur fram í umræðunni þá er þetta mjög þörf umræða, við þurfum að ræða um það hvernig framtíðargjaldmiðil við viljum hafa.

Hér hafa talað menn sem hafa miklu meira vit á þessum hlutum en ég mun nokkurn tímann hafa meðan ég lifi, því að það er ekkert auðvelt að setja sig inn í þetta. Eftir að hafa búið og lifað á þessu landi í 53 ár veit ég að þessi gjaldmiðill sem við eigum er ekki upp á marga fiska. Heldur hv. þm. Frosti Sigurjónsson að það sé verra fyrir okkur að vera í stærra myntbandalagi? Hefur íslenskur almenningur ekki alltaf borgað öll hrun hér á Íslandi? Það kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur hér áðan að þetta er alltaf eignatilfærsla þegar hrun verður.

Hv. þingmaður vill meina að við eigum að halda í krónuna og vera með krónuna, að það sé miklu betra fyrir okkur til lengri tíma. Ég á ofboðslega erfitt með að trúa því. Hvað finnst honum þá um það að stærstu fyrirtæki landsins geri upp í evrum? Fyrst við viljum halda í þessa krónu af hverju nota þá ekki allir Íslendingar hana, atvinnulífið líka? Atvinnulífið borgar fólkinu út í óverðtryggðum krónum. Það borgar allt verðtryggt. Síðan gera þessi sömu fyrirtæki annaðhvort upp í dollurum eða evrum. Þetta er bara fáránlega ósanngjarnt. Ef við ætlum að vera með þennan gjaldmiðil áfram þá hlýtur það að eiga við um alla Íslendinga, atvinnulífið líka.

Ég velti líka fyrir mér, þegar hann talar um þetta, að vextir hér á landi, til dæmis inni á banka á lánum, eru 10–12%. Hvað er það til dæmis eins og í Evrópusambandinu? Hvað er það, 1%? Það er dálítið mikill munur, 1 eða 2%. En finnst ekki hv. þingmanni að við ættum að láta það sama yfir alla að ganga hjá þjóðinni ef við ætlum að halda krónunni?