145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:53]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst byrja á þessari lokavangaveltu um vaxtastigið. Í upphafi myntbandalagsins voru allar þjóðirnar með þýska vexti, Spánn, Grikkland, Kýpur. Peningar á allt of lágum vöxtum geystust inn í þessi ríki. En nú er öldin önnur, nú eru vextir mjög ólíkir eftir því hvaða ríki er um að ræða og hver skuldastaða þess er. Ég held að það sé alla vega orðið mjög breytt mynd. Við getum ekki reiknað með því að ganga inn í myntbandalag og fá samstundis þýska vexti. Áhættuálagið helgast ekki af myntinni lengur, heldur af skuldastöðu okkar, fábreytni hagkerfisins og öllum þessum þáttum; og kannski hugsanlega því hversu fljót við erum að bregðast við áföllum fyrst við erum með sveiflukennt hagkerfi.

Ég hef faktískt meiri trú á því að ef við erum með okkar eigin gjaldmiðil þá séum við fljótari að bregðast við og komast aftur upp á lappirnar. Þess vegna getum við náð lægra vaxtastigi með því að vera með okkar eigin mynt. Ókei. Ef við erum með annarra manna mynt þá munum við þurfa að fara í gegnum langt atvinnuleysi og svokallaðar innri gengisfellingar eins og verið er að æfa í Grikklandi. Það er hræðilegt ástand, leiðir til fjármagnsflótta og hærra vaxtastigs.

Hv. þingmaður spurði líka út í það hvort tilefni væri til þess að banna fyrirtækjum að gera upp í erlendri mynt. Ég sé alls ekki neinn meinbug á því að það geri upp sitt bókhald í þeim viðmiðunarmyntum sem þau kjósa. Þau greiða bara skatta í krónum og þá eru þau í raun innan íslenska hagkerfisins. Mörg þeirra fyrirtækja sem gera upp í dollurum eða evrum gera það vegna þess að megnið af viðskiptum þeirra, öll þeirra velta, er í þessum myntum.

Ég held að íslenska krónan eigi að vera hér til hagræðis í innanríkisviðskiptum. Ég vil ekki gera kröfu um það að neinir í erlendum viðskiptum noti krónu sérstaklega. Það er bara absúrd í mínum huga. Við eigum ekki að pína fólk til að nota krónu. Ég held að engum sé greiði gerður með því og það er ekkert óréttlæti þó að fyrirtæki kjósi að gera upp í annarri mynt. Það getur greitt út laun í krónum fyrir því.