145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[16:57]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kenndi ýmissa grasa í þessu andsvari. Með ESB-búbótina — ég hef nú sjaldan heyrt spaugilegri hugmynd. (Gripið fram í.)

Það er ljóst að Ísland yrði meðal þeirra ríkja sem yrðu með mestar þjóðartekjur á mann í þessu efnahagsbandalagi. Það er ljóst að búbótin fyrir Íslendinga yrði að fá að greiða meira til bandalagsins en það fær frá bandalaginu, þannig að það getur ekki verið búbót fyrir Ísland, það er alveg ljóst.

Við greiðum þá ákveðið prósent af þjóðartekjum inn í sameiginlega sjóði og sú prósenta mun bara fara hækkandi. Þar sem þjóðartekjur á mann eru hærri á Íslandi en annars staðar þá endar það með því að við greiðum meira en aðrir. Það er ekki búbót í mínum huga.

Og það er ekki hægt að flytja inn aga með því að taka upp gjaldmiðil annarra. Það er ekki hægt að flytja inn lága vexti með því, eins og ég hafði áður nefnt. Það fer algjörlega eftir því hvernig við hegðum okkur. Við þurfum að hegða okkur betur, læra af mistökunum. Það er ekki þannig að einhver eigi að koma og hegða sér fyrir okkur, við verðum sjálf að gera bragarbót í því hvernig við hegðum okkur í efnahagsmálum. Við höfum gert mikinn skurk í því. Ég held að hv. þingmaður eigi ekki að hafa áhyggjur af þessu. Það eru til lausnir á þeim vandamálum sem talað er um.

Hann tók dæmi af sjálfum sér og vininum í Kaupmannahöfn. Þar er ekki verið að nota verðtryggð lán til fasteignakaupa. Við eigum að afnema verðtrygginguna. Við eigum að halda vaxtastiginu lægra og við eigum að nota þau stýritæki sem við getum til að hafa vaxtastigið eðlilegt. Nú er það þegar orðið það hátt að það fer að leiða til vaxtamunarviðskipta til landsins að mínu mati vegna þess að stýritækin sem Seðlabankinn er að beita eru of einhæf. Hann hefur sjálfur talað um það, í hinni ágætu skýrslu sem hér var nefnd, að hann þurfi að beita fleiri og fjölbreyttari stýritækjum en stýrivöxtum. Ég er sammála því.