145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:08]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir áhugaverð sjónarmið. Ég hjó eftir því að hv. þingmanni er tíðrætt um aðlögunarhæfni og aga. Ég ætla rétt að spyrja hann af hverju hann telur að Svíum, Bretum, Pólverjum og öðrum þjóðum sem eru í Evrópska efnahagssvæðinu og eiga þess kost að taka upp evruna hafi ekki hugkvæmst að gera það. Það verður sífellt ólíklegra að Svíar og Pólverjar vilji taka upp evru, þótt þeim sé beinlínis skylt að gera það. Þeir draga lappirnar og sjást hælaförin langar leiðir. Þeim dettur ekki í hug að taka upp þá mynt sem hér virðist vera lausn allra vandamál. Hugsanlega er það vegna þess að þeir þurfa þessa aðlögunarhæfni. Ég held að það verði að ræða þann valkost líka, aðlögunarhæfnina. Ef við höfum ekki aðlögunarhæfnina gegnum gengið er hinn valkosturinn innri gengisfelling.

Ég ræddi aðeins í fyrri ræðu hvað það þýðir. Önnur leiðin er að öll laun í landinu leiðréttast yfir nótt. Þá þarf ekki nein pólitísk átök um það eða segja: Þú lækkar launin þín, þú lækkar launin þín, þú lækkar launin þín og allir fara í verkfall þangað til það er orðið 12%, 14% atvinnuleysi og enginn þorir að mögla — sem er hin leiðin, venjulega leiðin sem farin er í innri gengisfellingu og tekur venjulega þrjú, fjögur, fimm ár. Hitt gerist yfir nótt. Gengið lækkaði. Við erum ekki lengur samkeppnishæf á alþjóðamörkuðum með útflutning okkar. Það getur mjög gjarnan gerst, ekki einungis vegna agaleysis hjá einhverjum spilltum eða illa þenkjandi stjórnmálamönnum heldur vegna þess að við verðum fyrir ytra áfalli. Erlendir markaðir okkar geta brugðist, það getur orðið ófriður í heiminum, það getur hvað sem er gerst, náttúruhamfarir.

Þá er spurning hvernig ætlum við að aðlagast. Ef við erum með gengi til að aðlagast gerist það hratt og vel en innri gengisfellingin tekur langan tíma og þýðir að við förum í launalækkanir, sem byrja yfirleitt hjá þeim sem (Forseti hringir.) minnst geta varist, og það tekur langan tíma. Hvor leiðin er fýsilegri að mati hv. þingmanns, innri gengisfelling (Forseti hringir.) eða aðlögunarhæfnin í gegnum gengið?