145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:10]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru áhugaverðar spurningar. Í raun og veru er ég að segja að stöðugri gjaldmiðill muni minnka líkurnar á svona gengisfellingum, hvort sem þær eru innri eða ytri, vegna þess m.a., eins og ég rakti í ræðu minni áðan, að stöðugri gjaldmiðill mundi skjóta fleiri stoðum undir efnahagslífið og líklegt er að það verði fjölbreyttari útflutningur, fjölbreyttara atvinnulíf í slíkum kringumstæðum. Við yrðum ekki jafn undirseld einhæfni. Ef við erum að tala um rót vandans á Íslandi hefur það alltaf verið einhæfni í atvinnulífi, alla vega ein stór rót vandans. Við þurfum að losna úr því umhverfi. Er líklegt að við gerum það með krónu? Ef það er ekki líklegt að við gerum það með krónu erum við undirseldari sveiflum. Ef við erum hins vegar líklegri til þess að auka fjölbreytni í atvinnulífinu með evru minnkum við líkurnar á sveiflum.

Síðan verð ég að segja að ef við ætlum að vera á sameiginlegu myntsvæði skiptir öll umgjörð vinnumarkaðsmála til dæmis máli. Þau ríki sem búa við mjög klunnalega umgjörð í vinnumarkaðsmálum, lítinn sveigjanleika, hafa átt erfitt í evrusamstarfi. Auðvitað verður aðlögunarhæfni efnahagslífsins að birtast einhvern veginn og hún verður þá að birtast í því að vinnuafl sé mögulega færanlegt eða hagkerfið og atvinnulífið sé þannig að menn eru duglegir við að skapa sér tækifæri á sameiginlegu myntsvæði og hafi til þess lagaumgjörð og hvatningu. Þeir faktorar skipta líka mjög miklu máli.

Talandi um agann. Sögu sumra Eystrasaltsþjóðanna mætti ræða í samhengi við evruna. Það var tekin sú ákvörðun (Forseti hringir.) að taka upp evru á mjög erfiðum tímum sem þýddi stórbrotinn niðurskurð í ríkisfjármálum í nokkur ár. En nú (Forseti hringir.) eru þeir að uppskera. Þeir fluttu inn agann og njóta núna góðs af því.