145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:15]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að enginn gjaldmiðill sé fullkomlega stöðugur, ekki nema hann búi við óeðlileg ríkisafskipti og höft. Við búum í svolítilli gerviveröld núna með krónuna í höftum og getum því gumað af meiri stöðugleika í orði heldur en við mundum búa við ef við byggjum við frjálsa fjármagnsflutninga.

Varðandi það hvort innri gengisfelling í myntbandalagi yrði erfið fyrir vinnuaflið er þetta náttúrlega ein lykilspurningin. Það er ágætlega farið yfir þetta í greiningu Seðlabankans á valkostum í gjaldeyrismálum. Þarna er auðvitað lykilatriði hver umgjörð vinnumarkaðsmála er í landinu. Það er algjört lykilatriði.

Ég held að við séum vel í stakk búin til að takast á við öll þau krefjandi verkefni sem myntbandalag innan evrunnar mundi fela í sér. Eitt krefjandi verkefni væri að búa til þannig vinnumarkað að hann gæti nýtt sér stöðugleikann til þess að leysa kraft úr læðingi, til þess að leysa meiri fjölbreytni úr læðingi, til þess að skjóta fleiri stoðum undir efnahagslífið, þannig að ef áföll yrðu væri vinnumarkaðurinn nógu sveigjanlegur til að leita sér að nýjum tækifærum. Þetta hefur háð sumum löndum í myntbandalaginu. Þau hafa ekki búið við nógu sveigjanleg skilyrði á vinnumarkaði. En ég held að við búum við það, a.m.k. gætum við hagað málum þannig.

Þetta er því alltaf spurning um valkosti. Ég held að stöðugleiki, eða a.m.k. meiri stöðugleiki (Forseti hringir.) en við búum við, og haftaleysi séu (Forseti hringir.) betri kostir en aðlögunarhæfni og sveiflur íslensku krónunnar.