145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:17]
Horfa

Hörður Ríkharðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst afar lærdómsríkar og áhugaverðar umræður hafa farið hér fram í dag og mig langar aðeins að drepa á nokkrar víddir í þessari umræðu og hvetja þá sem helst hafa tekið til máls til frekari dáða vegna þess að umræðan leiðir smám saman fram kostina, gallana og svið umræðunnar.

Í þessum ræðustól er alltaf verið að tala um Miðjarðarhafslöndin sem eiga ekki mikla samleið með okkur hér í norðrinu hvað áhrærir menningu, lýðræðisþróun, hagkerfi og ýmislegt fleira. Mér finnst miklu áhugaverðara að skoða þróun á Norðurlöndunum og frekar í Norður-Evrópu og Vestur-Evrópu. Norðurlöndin hafa sum sinn eigin gjaldmiðil en hann er náttúrlega tengdur evru og þau kusu að ganga í Evrópusambandið, að Noregi undanskildum. (Gripið fram í.) Fyrirgefðu? Ekki tengt? Efnahagsstjórn þeirra tekur engu að síður nokkurt mið af evru.

Það er vandi að teikna krónumyndir og ég bið hv. þm. Frosta Sigurjónsson endilega að taka til máls um það og helst svara spurningunni: Hvar í heiminum er svona lítið krúttlegt hagkerfi með sinn eigin gjaldmiðil sem byggir svona ofboðslega mikið á utanríkisviðskiptum og hefur í lengri tíma tekist að reka svona krúttlegt, fallegt hagkerfi með ofboðslega jafnri verðmætadreifingu fyrir alla þjóðfélagshópa í sínu þjóðfélagi og svona miklum aga sem það bjó til sjálft? Þetta er svo útópísk mynd. Við getum tekið nokkur ár eftir þjóðarsáttina á Íslandi og sagt að þá hafi gengið vel um skeið, en ætli það sé ekki um það bil eini tíminn, a.m.k. á lýðveldistímanum? Nú kunna menn að segja að það sé ýmislegt annað en gjaldmiðillinn og það er alveg rétt, það er náttúrlega margt annað sem hefur gerst.

Svo ræða menn aldrei Bandaríkin þar sem eru yfir 50 ríki sem öll hafa sama gjaldmiðilinn, að því er ég best veit á sama genginu, enda þótt efnahags- og þjóðlíf í þessum fylkjum sé vægast sagt mjög ólíkt og hugsanlega ólíkara innbyrðis en margra Evrópuríkjanna. Þeim hefur farnast vel og ekkert þeirra held ég að vilji hætta í því.

Það er kannski helst þetta, það er verið að teikna upp þessar krónumyndir. Við vorum fyrr í dag að ræða um viðurlög við ölvunarakstri. Nú er hægt að segja sem svo: Er ekki öllum ljóst að það að aka ölvaður er fáránleg athöfn? Af hverju þarf þá lög um það ef þetta er svo einfalt að það sé hægt að taka upp hegðunina? Af hverju þurfa að vera viðurlög við ölvunarakstri? Af hverju þurfum við að vera að ræða það að þyngja þau? Það er væntanlega af því að samfélagsþegnunum tekst ekki að taka upp hegðunina. Þess vegna erum við með lög um að hún sé bönnuð og þess vegna erum við með viðurlög.

Við leitum í gjaldmiðlaumhverfi sem færir okkur meiri stöðugleika eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson talaði um, að hann væri að leita í eitthvert samhengi sem bindur okkur meira á ýmsum sviðum og veitir víðtækan stöðugleika án þess að vera nein björgun.

Ég ætla ekki að tala fyrir því sem einhverjum trúarbrögðum að taka upp evru eða ganga í Evrópusambandið, alls ekki. Það hefði hins vegar verið gaman að klára þessar viðræður, sjá til hvers þær leiddu og kannski er svolítil synd að það skyldi ekki takast. Hins vegar er ég ekkert endilega viss um eða sannfærður um að þær hefðu leitt til þess að við hefðum ákveðið að ganga inn. Við erum með þannig hagsmuni í sjávarútvegi, landbúnaði og fleiru. Aðalvandinn sem ég held að krónumenn þurfi að leysa er að geta sagt okkur betur hvernig við komumst inn í langt tímabil stöðugleika og nokkuð jafnra verðmætaskipta í þessu samfélagi meðan við erum með þann gjaldmiðil ef okkur hefur aldrei tekist það og það er ekki hægt að benda á neitt annað hagkerfi sem gerir það.

Svo er annað líka, þessi mismunur milli þeirra — Frosti sagði áðan að það skipti engu máli, fyrirtæki mættu alveg gera upp í erlendum gjaldmiðli og öll eiga viðskipti í mörgum gjaldmiðlum. Er hann að segja að það sé bara allt í lagi að ferðaþjónusta úti á landi taki við greiðslu í evrum af sínum viðskiptavinum þegar henni hentar? Er það bara fínt ef ég sel hest til útlanda og fæ hann borgaðan beint með evrum? Ókei, þá er hann að segja að við ætlum að vera hér með marga gjaldmiðla og þá verður bara mikill ójöfnuður í því. Margir hafa mikinn hag af því að geta selt hluti í dollurum, pundum eða evrum og gera það og versla svo með þann gjaldmiðil jafnvel á einhverjum eftirmarkaði sem er ekki til.

Ég ólst upp við það í verslun föður míns að hann verslaði með erlendan gjaldmiðil. Það voru mjög ábatasöm viðskipti en ég held að það hafi ekki verið sniðugt eða gott fyrir neinn í raun og veru. Við nutum mismunar á þeim grundvelli af því að hann gat útvegað sér þá peninga. Aðrir gátu það ekki og þá gat hann hagnast á því en það hafði ekkert að gera með frjáls viðskipti eða jöfnuð milli manna eða aðstöðu.

Ég hvet krónumenn til að halda áfram að rökstyðja krónuna því að mig langar að heyra fleiri sviðsmyndir og meiri teikningar af því hvernig við getum rekið stöðugt samfélag með krónu. Ekki mun af veita á næstu tveimur, þremur árum þegar höftin fara enn frekar. Hvernig og hvert förum við þá? Það þarf virkilega að reyna að teikna það upp og ég hvet þá til að gera það.