145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:31]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Herði Ríkharðssyni fyrir áhugavert innlegg þar sem hann varpaði fram ágætum spurningum, m.a.: Af hverju ræða menn aldrei um Bandaríkin? Ég vil gjarnan ræða um myntbandalagið í Bandaríkjunum. Það gengur ágætlega hjá þeim. Þar tala allir sama tungumálið og menn geta auðveldlega flutt úr einu fylki í annað sem er ekki óalgengt. Mér skilst að meðal-Bandaríkjamaðurinn flytjist búferlum 16 sinnum á ævinni, milli ýmissa fylkja en er alltaf í eigin heimalandi. Hann er ekki aðkomumaður í Bandaríkjunum. Það gerir þetta að miklu sveigjanlegra vinnumarkaðssvæði og það er líka hægt að færa fjármuni á milli fylkja með skattlagningu. Ég held að 20% af heildarskatttekjum hins opinbera í Bandaríkjunum séu þannig að það er hægt að færa þau á milli fylkja ólíkt því sem er í Evrópu þar sem ekki er hægt að færa slíkar upphæðir á milli. Ég held að 3% af þjóðarframleiðslu séu færanleg á milli, eitthvað slíkt. Það er sáralítil upphæð þannig að það er á engan hátt hægt að líkja þessu saman. Í rauninni er þetta ein þjóð með einn gjaldmiðil sem hefur farið saman í stríð, talar sama tungumál, á sama forseta og syngur sama þjóðsöng. (HR: Fannst þér …?)

Það á ekki við í myntbandalaginu, því miður, og þess vegna gengur það ekki upp. Við yrðum ekki þýsk þótt við tækjum upp þýska markið. Grikkir urðu ekki Þjóðverjar og þar fram eftir götunum.

Síðan er hitt: Hvernig er hægt að hafa stöðugleika með svona litla mynt? Er einhver önnur þjóð með eins litla mynt og við og skiptir það einhverju máli? Það er engin hagfræðikenning sem fjallar um það hvert sé hið smæsta mögulega myntsvæði. Í rauninni gæti lítið sveitarfélag verið myntsvæði. Það er ekkert vandamál í því í sjálfu sér. Það er mjög ódýrt að reka mynt. Hún er búin til úr engu og síðan er þetta bara tölvukerfi. Á mörgum stöðum er verið að búa til litlar lókalmyntir til að vinna bug á atvinnuleysi eða samdrætti. Hins vegar fjalla hagfræðikenningar um það hversu mikil vandamál skapast þegar ólík hagkerfi fara að nota sama viðmiðið (Forseti hringir.) í viðskiptum, sömu myntina, gríðarleg vandamál sem leiða til atvinnuleysis og alls kyns óáranar.