145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:34]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mundi gjarnan vilja hafa nokkra ræðutíma í viðbót til að fara yfir þetta málefni. Þetta er afskaplega spennandi viðfangsefni.

Menn setja upp litlar mynteiningar á litlum svæðum, það eru mörg dæmi um „local currencies“ sem eru rekin á samfélagssjónarmiðum til að skapa gjaldmiðil þar sem enginn er fyrir vegna þess að það er fjármagnsflótti frá þeim svæðum. Það hefur víða tekist mjög vel.

Ísland er í rauninni sérstakt lítið myntsvæði til að hagkerfi okkar geti unnið og náð sínum bestu afköstum. Ef við tækjum upp annarra manna mynt mundi hún flæða til og frá eftir lögmálum sem við ráðum engu um. Það er vandinn. Hérna kom aðeins til tals hvort það væri vandamál í sjálfu sér að einhver í ferðaiðnaði tæki við gjaldeyri sem greiðslu fyrir þjónustu sína. Alls ekki. Það sem verið er að tala um er að það er lögeyrir í landinu. Hann er króna. Með henni væri hægt að greiða allar skuldir, alla skatta. Það er ekki hægt að greiða skatta með mörkum eða það þyrfti að breyta þeim yfir í krónur fyrst og allt slíkt. Það er ekki verið að reyna að tryggja að hérna sé bara króna og engir aðrir gjaldmiðlar, það er alls ekki tilgangur myntarinnar heldur að alls staðar þar sem ekki eru eðlilega önnur tákn til að nota til að eiga viðskipti sé alltaf krónan tilbúin og hægt að nota hana til að eiga heppileg og auðveld viðskipti.

Það er í sjálfu sér ekkert vandamál þó að menn fái erlendar tekjur. Það er ekkert vandamál þó að mörg fyrirtæki séu í hreinum útflutningi og fái greitt í gjaldeyri. Þau geta breytt honum í krónur til að greiða út laun og greiða skatta. Það þarf að greiða virðisaukaskatt í krónum þannig að okkar kerfi notar alltaf krónu og innlendan gjaldmiðil þegar hægt er og þannig getum við sparað það hvað við fáum mikið af erlendum gjaldmiðli að láni til að eiga viðskipti hvert við annað þar sem í rauninni er engin þörf á að hafa erlendan gjaldmiðil. Því oftar sem við notum okkar innlenda gjaldmiðil erum við að spara okkur það að fá annarra manna gjaldmiðil að láni. Hins vegar er kapítuli um það hvernig við getum séð til þess að okkar innlendi gjaldmiðill sé stöðugri. (Forseti hringir.) Það eru margar leiðir til þess.