145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:38]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég held að við eigum endilega að lengja umræðuna vegna þess að hún er mjög mikilvæg. Ég fagna þessari tillögu til þingsályktunar um framtíðargjaldmiðil Íslands. Við erum náttúrlega að fjalla um grundvallaratriði, þetta er meiri háttar áskorun sem við stöndum frammi fyrir hvernig við ætlum að standa að gjaldmiðilsmálum inn í framtíðina.

Spurt var áðan hvort menn gætu nefnt smá samfélög með smáan gjaldmiðil sem vegnaði vel. Ég ætla að nefna eitt samfélag, það er Ísland. Hér er ekki allt eins og best verður á kosið en margt. Ég horfi þá sérstaklega til þess þáttar sem mér finnst skipta einna mestu máli þegar velferð þjóðanna er metin og það er atvinnustigið.

Frá lokum seinni heimsstyrjaldar og fram undir þennan dag hefur okkur tekist að halda háu atvinnustigi á Íslandi. Það er gríðarlega mikilvægt. Síðari hluta 20. aldar var atvinnuleysi á Íslandi að meðaltali á milli 1 og 2% að undanskildum síðustu árum 7. áratugarins, fyrstu árum hins tíunda áratugar og síðan nokkrum árum á nýrri öld. Þetta tókst okkur að gera þrátt fyrir smáan gjaldmiðil, eða eigum við að segja vegna hins smáa gjaldmiðils, vegna þess að staðreyndin er náttúrlega sú að gjaldmiðill er hvorki góður né slæmur í sjálfu sér. Það er ekki hægt að fylgja honum eftir út í hið óendanlega. Hann getur verið skaðlegur, eins og hann var fyrir Ísland þegar hann lenti í klónum á spekúlöntum á fjármálamarkaði sem nýttu sér smæð gjaldmiðilsins til að hagnast á honum, þá var hann til ills og átti þátt í okkar hruni, en þegar hrunið var komið átti smæð gjaldmiðilsins þátt í að reisa okkur við. Ég verð að segja að fremur vildi ég íslensku leiðina þar sem kaupmáttur þjóðarinnar allrar var skertur þegar gjaldmiðillinn féll um 50% en að fá 60% atvinnuleysi á meðal ungs fólks eins og gerðist í Grikklandi og í ýmsum öðrum löndum um sunnanverða Evrópu. Þetta er staðreynd og er eitthvert alvarlegasta og ljótasta þjóðfélagsmein sem um getur. Mér finnst ekki hægt að horfa fram hjá þeim veruleika. Ekki er hægt að horfa fram hjá þeim veruleika að jafnvel þegar verst lét hjá Íslendingum í kjölfar hrunsins fór atvinnuleysið ekki upp fyrir 10% og er núna komið niður í um það bil 3% til eða frá. Þetta er árangur sem að einhverju leyti og kannski verulegu leyti má rekja til gjaldmiðilsins. Við verðum að horfa fram á þetta á raunsæjan hátt.

Síðan er hitt sem ég vil kalla hina undarlegu barnatrú að halda að með því að innleiða sameiginlegan gjaldmiðil á stóru svæði þá sé þar með komin samræmd vaxtastefna og samræmd, viti menn, verðbólga. Halda menn að verðbólga sé hin sama á gervöllu evrusvæðinu? Nei. Auðvitað getur verðbólga orðið í norðanverðu Finnlandi þegar aðföng verða dýrari og kaffið hækkar á veitingastöðunum og í búðunum þótt hið sama eigi sér ekki stað á Suður-Ítalíu. Verð á vinnuafli, kaupið, getur vaxið á einum stað en lækkað á öðrum og þannig stuðlað að mismunandi verðbólgustigi innan þessa svæðis.

En það sem mig langaði til að vekja athygli á í umræðunni er að setja hana inn í sögulegt samhengi Evrópusambandsins og þeirra vona sem bundnar voru við Evrópusambandið frá upphafi vega. Hverjar voru þær? Það voru vissulega vonir af efnahagslegum toga en þær voru tengdar friði. Menn vonuðust til að samvinna á efnahagssviðinu mundi stuðla að friði og það finnst mér göfug markmið. Auðvitað tekur maður undir þau og skilur þær þjóðir sem rifu sig á hol í átökum, í heimsstyrjöldum og innri stríðum um aldir að vilja finna leiðir til að draga úr átökum og innri spennu. En hvað gerist þegar Evrópusambandið stígur fastar inn í þann heim sem er að verða til með sameiginlegum gjaldmiðli og sameiginlegri peningastefnu og þeirri hugmynd sem fylgdi þeim pakka að hinn evrópski seðlabanki hefði refsivald ef stigið væri út af línunni? Það var hugmyndin.

Hverjir eru líklegastir til að vera beittir slíkum refsivendi? Það eru fátækari ríkin í Suður-Evrópu. Við þessu var varað fyrir nokkrum árum þegar menn ræddu aukið vald og refsivald af hálfu Evrópska seðlabankans. Þá var það rætt og því var vísað á bug. En hvað er að gerast núna? Hvað er að gerast gagnvart Grikklandi? Hvað er að gerast gagnvart Spáni? Hvað er að gerast gagnvart Suður-Evrópu almennt og hvar liggja þessar víglínur? Ég hélt að málið væri kannski einfaldara en það er í reynd þegar ég heimsótti Holland fyrir nokkrum vikum, þá heimsótti ég félaga minn í pólitíkinni. Ég hélt að fullkomin samstaða væri með Grikkjum sem væru beittir ofríki af hálfu norðursins, Þýskalandi, Hollandi og norðanverðri evrunni. Nei, nei, nei. Það var reiði í garð Grikkja. Það var reiði í garð Spánverja. Það var reiði í garð sunnanverðrar Ítalíu. Hvers vegna? Vegna þess að norðanmenn sögðu: Það erum við sem verðum látin borga. Hvers vegna rifja ég þetta upp? Ég geri það í því samhengi þegar horft er til þeirra markmiða, þeirra göfugu markmiða sem reist voru þegar Evrópusambandið og kolabandalagið upphaflega voru sett á laggirnar til að stuðla að friði og draga úr spennu. Við erum að sjá hið gagnstæða gerast. Og núna þegar við sjáum logana og sums staðar rústir eru menn á Íslandi að viðra þá drauma sína um að knýja okkur inn í þessa veröld. Hvílíkur fáránleiki. Hvers konar fáránleiki er hér á ferðinni?

Ég fagna því að 1. flutningsmaður þingmálsins gangi hér í salinn og vilji fara í andsvar, ég vil minna hann á að ég fagnaði því að fá þessa umræðu, mér finnst hún góð, mér finnst hún mikilvæg, þyrfti helst að vera hér á hverjum degi til að minna okkur á þær staðreyndir sem ég hef hér vikið að, hæstv. forseti. Nei, við eigum ekki að flana að neinu í þessum efnum. Við eigum að horfa, ekki bara á ókosti krónunnar, okkar litla gjaldmiðils sem eru ótvíræðir, það neitar því enginn. Það reynir enginn að horfa fram hjá því. En við eigum líka að horfa á kostina og hið góða sem sjálfstæður gjaldmiðill og hreyfanleiki hans við lífskjörum okkar hefur haft í för með sér. Ég endurtek: Fremur vil ég kjaraskerðingu yfir línuna en atvinnuleysi hjá 20, 30, 40, upp í 60% þegar horft er til ungs fólks í sunnanverðri Evrópu.