145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[17:53]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar vandaða ræðu og áhugaverða. Ég hjó eftir þessu, sem ég hef oft tekið eftir líka, að myntbandalagið, sem fór af stað með svo góðum ásetningi, hefur alið á vaxandi óvild milli þjóðanna, milli jaðarríkjanna og stóru ríkjanna. Ég velti fyrir mér þeirri spurningu, og hugsanlega getur hv. þingmaður hjálpað mér við að finna svar við henni, hvaða hagsmunum myntbandalagið þjónar fyrst og fremst. Hagsmunum hverra þjónar það?

Það virðist ekki þjóna hagsmunum jaðarríkjanna, það virðist ekki þjóna hagsmunum almennings í þeim alla vega. Eru það stóru fyrirtækin eða litlu fyrirtækin? Er það Þýskaland sem hefur notið yfirburðastöðu? Störfin hafa í raun flust til Þýskalands frá jaðarríkjunum sem hafa reynst ósamkeppnisfær. Þetta er stóra spurningin. Hvað hefur gerst með þessu myntbandalagi? Er heimurinn betri með tilkomu þess eða væri betra að vera með litlu gjaldmiðlana áfram?