145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann hélt því fram að gjaldmiðillinn væri einhvers konar tól eða þetta væri bara spurning um hvernig við notuðum hann og þetta túlka ég oft sem rökstuðning fyrir því að hann skipti ekki máli, en auðvitað er það ekki. Tól skipta máli. Það skiptir máli hvaða tól við veljum eins og ég fór ágætlega yfir held ég í ræðu áðan.

Eitt er rauður þráður að mínu mati í ákveðinni málsvörn hv. þingmanns fyrir krónunni. Hann heldur því fram, sem ég held að sé sannleikskorn í, að krónan hafi haldið uppi atvinnustigi og hérna sé lítið atvinnuleysi vegna þess að við höfum krónu og þá eru réttlættar ákveðnar kjaraskerðingar sem hv. þingmaður telur, ef ég skildi hann rétt, að gangi yfir alla, en ég held að það gangi reyndar ekki yfir alla, sumir séu undanþegnir þessum kjaraskerðingum. Þá vil ég spyrja á móti: (Forseti hringir.) Er ekki hægt að mati þingmannsins að halda uppi atvinnustigi, hafa lítið atvinnuleysi með öðrum hætti en þessum kjaraskerðingum sem felast í síendurteknu gengisfalli krónunnar?