145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:22]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni um að ég held að erfitt sé að ná þessum markmiðum með krónunni. Ég held því hins vegar mjög sterkt fram að til séu aðrar leiðir sem gera okkur kleift að ná þessum markmiðum betur þótt við náum þeim ef til vill ekki öllum. Ég heyri í sjálfu sér alveg hvað hv. þingmaður er að meina þegar hann segir að það sé lítið fjármálalæsi og auðvitað get ég tekið undir það. Hrunið er vitnisburður um lélegt fjármálalæsi á mörgum sviðum.

Ég vil líka vekja athygli á því að íslenskar kringumstæður hafa skapað vissa tegund af fjármálalæsi sem er einfaldlega dálítil spákaupmennska og reyna að redda sér í sveiflum og að mörgu leyti mjög óæskilegt samfélag. Stundum eru líka tvær hliðar á þessu. Fólk fór í erlendu lánin, meðal annars út af vissri tegund af fjármálalæsi. Það voru margir búnir að reikna það út, meðal annars sveitarfélögin. Því hefur verið haldið fram fyrir efnahags- og viðskiptanefnd að erlendu lánin, út af vaxtastiginu á Íslandi, væru einfaldlega hagstæðari til lengri tíma litið þótt hrunið hefði átt sér stað. Þetta er mjög áhugavert. Það er því ekki alveg hægt að stökkva á yfirlýsingarnar í þessu samhengi.

Hv. þingmaður minntist á d-liðinn í þingsályktunartillögunni um atvinnustigið. Það er svolítið lykilmarkmið þarna. Það var dálítið áhugavert að ræða það, það bar aðeins á góma í umræðum við hv. þm. Ögmund Jónasson og fleiri. Því er haldið fram að krónan haldi uppi atvinnustigi. Það sem verið er að segja með því, held ég, er að krónan heldur uppi einhæfu atvinnulífi. Hún heldur uppi atvinnulífi sem græðir á síendurteknum kjaraskerðingum og því að við séum með verri laun á Íslandi en í öðrum löndum. Þetta leiðir til þess, sem hv. þingmaður kom hér inn á, að það verður spekileki og atvinnugreinar (Forseti hringir.) sem þurfa að reiða sig á erlenda sérfræðinga og þar fram eftir götunum vaxa ekki og fjölbreytni verður minni. Þannig að það eru tvær hliðar á þessu.