145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:39]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Annarra manna gjaldmiðlar, þar vísar hv. þingmaður í myntbandalag sem meira en 500 milljónir manns eiga aðild að, eða reyndar innan við það því það eru ekki allar þjóðir Evrópusambandsins með evru en ansi mörg ríki. Ég fagna því líka að þingmaðurinn taki þátt í umræðunni, hann er eini stjórnarþingmaðurinn sem sýnir þessu máli áhuga og svo er annar á mælendaskrá á eftir.

En ég verð að játa það að ég er ekki sammála sýn hv. þm. Frosta Sigurjónssonar í gjaldmiðilsmálum. Kannski skil ég hann bara ekki nógu vel en ég tel að hún sé ekki til þess fallin að efla efnahagslífið. Þetta er mjög stíft kerfi. Ég skil ekki alveg hvernig þingmaðurinn sér fyrir sér að þetta kerfi henti nútímahagkerfi. Ég verð að játa að ég sé það ekki. Ég held að til að auka stöðugleika í fjármálakerfinu væri eðlilegt fyrsta skref að skilja á milli viðskiptastarfsemi og síðan fjárfestingarstarfsemi hjá bönkunum. Það væri miklu mikilvægara skref. Mér hafa virst hugmyndir hv. þingmanns til þess fallnar að njörva of mikið niður kerfið og draga úr öllum sveigjanleika.