145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:41]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi spyrja hv. þingmann að einu en það snertir það að ýmis ríki hafa gengið í þetta myntbandalag með miklar vonir um að það muni flytja þeim aga, betri fjármál, meiri stöðugleika, t.d. Grikkland sem ég ætla að voga mér að nefna einu sinni enn í dag. Grikkir lentu í áfalli, hver sem orsökin var og rótin, hugsanlega spilling, hugsanlega rangar ákvarðanir, en þeir urðu fyrir efnahagsáfalli. Áföll geta orðið bæði af náttúrulegum ástæðum, ytri ástæðum og innri ástæðum, ég ætla ekki að dæma um það en Grikkir lentu í áfalli og þeir höfðu ekki lengur þetta tæki til að aðlagast í gegnum gengið. Þeir urðu að fara í gegnum svokallaða innri gengisfellingu. Innri gengisfelling þýðir það sama, launin lækka, eignir lækka, það verður atvinnuleysi, skuldirnar lækka hins vegar ekki. Þetta tekur lengri tíma. Ef þetta gerist í gegnum gengið þá gerist það bara yfir nótt. Allt í einu væri drakman orðin lægri, það mundi bitna á öllum, skuldirnar mundu lækka, þeir eru ekki með verðtryggingu. Ég er sammála hv. þingmanni að við verðum að afnema verðtrygginguna vegna þess að hún skemmir í raun sveigjanleika gjaldmiðils okkar. Verðtryggingin leiðir til þess að aðlögunin er bara á launahliðinni en ekki á skuldahliðinni.

En í Grikklandi sem hefði verið með drökmu og ekki með verðtryggingu hefði aðlögunin gerst hraðar. Nú eru Grikkir búnir að ganga í gegnum margra ára innri gengisfellingu sem hefur leitt til þess að hagkerfi þeirra hefur skroppið saman um 20%. Ríkisskuldir hafa aukist úr 100% af þjóðarframleiðslu upp í 180% af þjóðarframleiðslu af því að ríkið hefur þurft að gangast í ábyrgðir fyrir lánum sem bankarnir þurftu að taka til að afla sér lausafjár. Þeir hafa tekið sér lán í Seðlabankanum. Seðlabankinn hefur óskað eftir ríkisábyrgðum frá gríska ríkinu vegna þess að ábyrgðir bankanna héldu ekki, þetta eru einkabankar. Það er engin einföld lausn á þessu. Ég er sammála því að íslenska krónan er ekki fullkomin en það er til ófullkomnari hlutur sem Joseph Stiglitz og fleiri nóbelshagfræðingar (Forseti hringir.) hafa kallað stærstu efnahagsmistök myntbandalagsins. Viljum við ganga inn í þau mistök? Er það lausnin á okkar vanda?