145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:46]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hefur verið hér lungann úr deginum. Umræðan hefur verið löng og ég ætla svo sem ekki að lengja hana neitt verulega. Ég tek undir þau orð sem ég heyrði að einn hv. þingmaður lét falla, að þetta væri umræða sem mætti jafnvel taka oftar í þingsal. Þetta varðar auðvitað mikilvægt mál, gjaldmiðil Íslands og peningastefnuna almennt. Það mætti auðvitað ræða miklu oftar hér í þessum sal. Ég fagna því nú sérstaklega, og vil láta þess getið, að fá tækifæri til að taka þátt í þessari umræðu núna því að mér hefur ekki staðið það til boða í öll hin skiptin sem þessi þingsályktunartillaga hefur verið til umræðu hér. Eins og flutningsmaður kom inn á í upphafi þá hefur tillaga um þetta efni verið flutt áður.

Ég vildi hins vegar aðeins nefna nokkur atriði sem mér finnst rétt að menn hafi í huga og mætti ræða frekar á síðari stigum. Mér finnst þessi tillaga ganga í fyrsta lagi óþarflega mikið út frá því að íslenska krónan eða sá gjaldmiðill sem íslenska ríkið gefur út á hverjum tíma sé ekki heppilegur gjaldmiðill. Ég nefni þetta vegna þess að tillagan er um að stjórnvöld láti fara fram úttekt á því hvaða fyrirkomulag sé heppilegt til framtíðar og þá finnst mér óþarfi að útiloka það í upphafi að ríkisrekinn íslenskur gjaldmiðill sé ekki boðlegur kostur án þess að ég leggi nokkuð mat á það á þessari stundu hvort svo sé. Einnig finnst mér þessi tillaga fela í sér óþarflega mikið traust á gjaldmiðlum yfirleitt. Allir gjaldmiðlar eiga sína góðu og slæmu daga. Ég velti fyrir mér hvort flutningsmenn þessarar tillögu sæju það fyrir sér að þegar sá gjaldmiðill sem hér yrði tekinn upp ætti slæmt tímabil þá væri tími til kominn að skipta um gjaldmiðil.

Ég vil líka nefna að það er ekki gjaldmiðillinn sem slíkur sem eflir traust á efnahagslífið. Í tillögunni er gert ráð fyrir að horft verði til ýmissa þátta og þar á meðal þess að notkun gjaldmiðils auki eða efli traust á íslensku efnahagslífi til langs tíma. Það er auðvitað ekki gjaldmiðillinn sem eflir traust á efnahagslífi heldur eru það aðilar á markaðnum, atvinnulífið sjálf og stjórnvöld sem byggja almennt undir traust á efnahagslífið með aðgerðum sínum í hverju landi.

Ég hjó eftir því fyrr í dag að fullyrt var að fjármagn leitaði út úr íslensku hagkerfi vegna skorts á trausti án þess að útskýrt væri frekar hvort það væri traust á íslensku efnahagslífi eða sérstaklega gjaldmiðlinum. Menn verða auðvitað að hafa í huga að við vorum með íslensku krónuna fyrir hrun bankanna árið 2008 og fyrir þann tíma streymdi hingað erlent fjármagn eins og enginn væri morgundagurinn og ekki skorti þá traustið á gjaldmiðlinum eða efnahagslífinu almennt.

Í tillögunni segir að horfa þurfi til þess að gjaldmiðill auki frelsi í viðskiptum við útlönd. Ég vil þá nefna að einn gjaldmiðill umfram annan er ekki forsenda fyrir frelsi í viðskiptum. Nærtækt dæmi er Evrópusambandið og Bandaríkin, þessi sambönd og ríki leggja á alls kyns höft á utanríkisverslun. Ég ætla nú ekki að mæla því bót en ég nefni það bara þannig að það hefur ekkert með gjaldmiðilinn að gera.

Talandi um höft þá rifjast Kýpur upp fyrir mér. Grikkland hefur verið mikið í umræðunni í dag, en ég hef ekki heyrt neinn nefna Kýpur í þessu sambandi. Kýpverjar brugðu á það ráð árið 2013 að taka upp gjaldeyrishöft. Það gerðu þeir þótt Kýpverjar væru með sameiginlega gjaldmiðil. Ég nefni þetta vegna þess að ég hjó eftir því í umræðunni hér að gjaldeyrishöft væru síður möguleg ef menn deildu gjaldmiðli með öðrum ríkjum. Þá má nefna það að Kýpverjar afléttu nýlega gjaldeyrishöftum sínum eftir tveggja ára haftatímabil og ef marka má fréttir þá er efnahagur á Kýpur að taka verulega við sér og ekkert bendir til þess í dag að vantraust t.d. erlendra fjárfesta hafi fest svo rætur að þeir geti ekki snúið aftur heldur þvert á móti, ef marka má fréttir, eru erlendar fjárfestingar að aukast óðum á Kýpur. Ég vil nefna þetta varðandi utanríkisviðskipti og utanríkisverslun. Menn mega ekki gefa gjaldmiðlinum meira vægi en innstæða er fyrir.

Ef ég súmmera þetta upp þá finnst mér í stuttu máli vanta umfjöllun um það grundvallaratriði í peningamálum hvernig gjaldmiðill nýtur trausts, þ.e. gjaldmiðillinn sjálfur en ekki efnahagslífið þar sem verslað er með hann. Mér finnst óþarfi, ef hugmyndin sem liggur hér að baki er að gera því skóna að íslenska krónan eða sá ríkismiðill sem menn vilja nota hér sé ekki traustsins verður. Ég hef engar verulegar áhyggjur af því þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt. Ég vil nú árétta að það er afar brýnt að það verði gert sem fyrst því að ekkert grefur meira undan trausti á efnahagslífi en einmitt gjaldeyrishöft, ekki gjaldmiðillinn sjálfur. Ég óttast það ekkert sérstaklega að krónan sem slík verði vandamál þegar gjaldeyrishöftunum verður aflétt. Það er ekkert í íslensku efnahagslífi sem ætti ekki að geta hvatt til erlendra fjárfestinga og áframhaldandi uppbyggingar á íslensku efnahagslífi almennt.

Ég vil í lokin nefna það hér að í umræðu um gjaldeyrismál á Íslandi finnst mér óþarflega mikið gert úr því að einblína á einhvern einn gjaldmiðil og einhvern einn ríkisrekinn gjaldmiðil. Af hverju ekki marga gjaldmiðla? Af hverju ætti ekki að ríkja samkeppni á þessum markaði eins og öllum öðrum mörkuðum? Af hverju taka menn ekki upp þann gjaldmiðil sem hverjum og einum þykir best henta? Af hverju borgar útgerðin ekki í þeim gjaldmiðli sem hún fær greitt í, laun og annað? Einhverjir aðrir fá greitt í öðrum gjaldmiðli og greiða þá launin út í þeim gjaldmiðli og einstaklingar taka bara upp þann gjaldmiðil sem þeir sjálfir treysta best. Ég held það sé rétt að menn hafi það í huga að gjaldmiðill er bara vara eins og hver önnur vara sem byggir á trausti og gengur kaupum og sölum milli einstaklinga. Það er ekki sjálfgefið að eitt ríki sé endilega með einn ríkisgjaldmiðil og ein lausn hentar ekki endilega öllum.