145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[18:56]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir áhugaverða ræðu með áhugaverðum spurningum.

Mér finnst ástæða til að leggja áherslu á að þingsályktunartillaga er ekki lögð fram vegna þess að orðið hafa einhver smáskakkaföll með krónuna í hruninu, þó það hafi reyndar verið alveg gríðarlegt hrun gjaldmiðils þegar það blasti við. Við erum að horfa á langvarandi sögu erfiðleika. Sínum augum lítur hver á silfrið, að vísu. Sumir tala um þetta sem mikla aðlögunarhæfni krónunnar, en við höfum horft á sögu gengisfellinga sem hafa haft sín áhrif á samfélagið. Hér eru undirliggjandi mjög stórar spurningar. Viljum við að samfélagið sé samfélag gengisfellinga? Gjaldmiðillinn skiptir auðvitað höfuðmáli í því. Sumt fyrirkomulag gjaldmiðilsmála býður ekki upp á gengisfellingar sem lausn á efnahagsvanda heldur verðum við þá að grípa til annarra lausna. Með þessari þingsályktunartillögu er verið að segja að við ætlum að skoða þessar aðrar lausnir. Það má ekki vera einhver nauðung í íslensku samfélagi að kjaraskerðingu, með öðrum orðum gengisfellingu, þurfi alltaf til til að halda uppi atvinnustigi og það eigi að vera saga 21. aldarinnar líka. Það er gjaldmiðillinn sem gefur okkur færi á þessari efnahagsstjórn. Við verðum að ræða það hvort við viljum hafa þannig gjaldmiðil sem býr til slíkar freistingar, eða hvort við eigum að taka upp gjaldmiðil sem býður ekki upp á það tól heldur aðrar lausnir. Ég held við eigum að gera það.

Gjaldmiðill og traust. Gjaldmiðill er náttúrlega eitthvað sem maður geymir verðmæti í og maður verður að geta treyst því að það sé geymslustaður verðmætis sem haldi sér, rýrni ekki að gildi. Því verður að skapa traust um gjaldmiðilinn. Einu sinni fékk fólk borgað í kaupfélagsinneignarnótum. Ég fann nokkrar slíkar um daginn. Þær eru einskis virði. Það er ekki hægt að kaupa neitt fyrir þær. Frelsi í fjármagnsflutningum er væntanlega líka lykilatriði. Við búum ekki við það vegna þess að frelsi í fjármagnsflutningum (Forseti hringir.) leiðir til þess að þú getur keypt meira fyrir þessar krónur. Það rýrir náttúrlega gildi gjaldmiðilsins núna. Þetta eru svona hugleiðingar í framhaldi af ræðu þingmannsins.