145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst kannski þurfa að hreinsa þá umræðu um hvort gjaldmiðill skipti máli eða ekki. Það er enginn að segja að það skipti höfuðmáli hvernig peningaseðillinn lítur út eða eitthvað svoleiðis, og auðvitað skiptir máli hvernig efnahagsstjórnin er og annað. Við flutningsmenn tillögunnar erum einfaldlega að segja að þessi mál hafa allt of lítið verið rædd, hver gjaldmiðillinn er, vegna þess að ef hann er tól sem ég held að sé alveg rétt, gjaldmiðill er vissulega tól í efnahagsstjórn, þá eru til mismunandi tól. Þau eru til í nokkrum stærðum og gerðum.

Kaupfélagsinneignarnóta var ekki gott tól vegna þess að ekki var mjög affarasælt að fá greidd út laun í kaupfélagsinneignarnótum því að þær urðu verðlausar með falli kaupfélaganna og lítið var hægt að kaupa fyrir þær. Menn gátu keypt nýja tunnu í kaupfélaginu ef hún kom, eitthvað svoleiðis. Það er svipað, náttúrlega ekki kannski í svona dramatískri mynd, sem er að gerast með krónuna. Við búum við fjármagnshöft sem gerir að verkum að ekki er hægt að kaupa jafn mikið fyrir hana í veröldinni eins og við mundum vilja með þeim gjaldmiðli sem við mundum vilja hafa í nútímalegu þjóðfélagi. Það er ekki hægt að treysta henni jafn mikið til þess að geyma verðmæti, þess vegna erum við með verðtryggða krónu sem er ekki mjög vinsæl eða gott fyrirkomulag. Ég held að það hafi mjög svona slepjandi áhrif á hagkerfið og sé ekki gott eða gagnsætt fyrirkomulag.

Ég held því fram að valið um það hvaða gjaldmiðill er notaður, allt frá kaupfélagsinneignarnótu yfir í evru eða eitthvað annað með krónu mögulega sem millistig, skipti máli. Þetta eru viss tól sem við höfum.

En spurningin er þá — vegna þess að ég heyri að hv. þingmaður vill frjálsa fjármagnsflutninga og búa við það — sér hv. þingmaður fyrir sér frjálsa fjármagnsflutninga með krónu?