145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:10]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þakka fyrir þetta spjall. Ég vildi aðeins bæta við þessar vangaveltur okkar sem mér finnst mjög skemmtilegar. Kostnaðurinn við slíkt fjölmyntakerfi, þar sem hver einstaklingur tekur upp þá mynt sem honum hentar í staðinn fyrir að ríkið sjái um að útvega gjaldmiðil sem er starfhæfur, leggst á alla þjóðina. Við þyrftum að taka lán í erlendum gjaldmiðli, það mundi enginn gefa okkur hann. Segjum að við þyrftum alla vega 40 milljarða af erlendum gjaldmiðli til að gera þetta, þ.e. til þess að skipta út þeim seðlum sem eru í umferð núna og virðist vera þörf fyrir, og hugsanlega einhverja hundruð milljarða á bankareikningum.

Það er miklu hagkvæmara fyrir okkur sem þjóð að borga ekki öðrum þjóðum vexti fyrir að útvega okkur þau tákn sem við ætlum að nota hérna til að geta átt viðskipti okkar á milli, að við segjum bara: Við ætlum að búa þessi tákn til sjálf og köllum þau krónu svo að við þurfum ekki að nota kanadadollar, bandaríkjadollar eða evru og spörum okkur vextina. Við gætum alveg eins hugsað okkur að taka upp gull, þá þyrftum við að kaupa gull að utan dýrum dómum, geyma það í Seðlabankanum og skiptast á ávísunum út á þennan gullforða. Það er ein leið. Ég velti því bara upp að þetta er mjög dýrt.

Þetta er besta viðskiptahugmynd sem ég hef rekist á að við sameinumst um sem þjóð. Ég er ekki talsmaður þess að ríkið sjái um alla hluti en það er stórsnjallt að biðja ríki að sjá um að starfrækja gjaldmiðil sem ríkið býr til úr engu, án þess að taka nokkurt lán hjá nokkurri þjóð, svo að við getum átt greiðari viðskipti með vörur okkar og þjónustu innan lands. Það er ekki hlutverk þess gjaldmiðils að gerast alþjóðlegur gjaldmiðill heldur bara gjaldmiðill fyrir okkar eigin þarfir.

Bandaríkjamenn hafa tekið þetta lengra. Þeir hafa búið til gjaldmiðil sem nær langt út fyrir Bandaríkin og önnur hagkerfi fá lán frá Bandaríkjamönnum. Það er uppspretta mikils auðs fyrir Bandaríkjamenn og mikil renta sem rennur frá þessum ríkjum til Bandaríkjanna. Fyrir það hafa Bandaríkin orðið mjög rík, a.m.k. bankamenn í Bandaríkjunum, þó að mér sýnist þetta ríkidæmi ekki hafa dreifst mjög vel. (Forseti hringir.)

Þetta er það sem ég vildi útskýra varðandi þessar tvær mismunandi leiðir, einhliða upptöku einnar myntar (Forseti hringir.) eða margra mynta.