145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna yfirlýsingu hv. þingmanns um Tobin-skattinn, að við hugleiðum það að Íslendingar beiti sér fyrir því að koma slíkum skatti á á alþjóðavísu. Þetta er umræða sem nú fer fram víða um heim.

Varðandi jaðarsvæðin og spennu og átök innan sameiginlegs myntsvæðis var það inntakið í ræðu minni áðan að halda því fram að þau markmið sem Evrópusambandið setti sér upphaflega, að draga úr spennu og tryggja friðinn, væru að snúast upp í andhverfu sína og við værum að sjá það gerast núna í spennunni sem hefði skapast milli norðurhluta Evrópusambandsins með Þýskaland, Holland og fleiri sterk svæði í fararbroddi og svo með Grikkland, Portúgal og Spán hins vegar. Þetta er náttúrlega vandinn, að innan sameiginlegrar myntar er reynt að koma á sameiginlegri peningastefnu, sameiginlegri stefnu og framfylgja henni. Það var ekkert leyndarmál að hugmyndin var og er sú, er að birtast okkur að hluta til, að evrópski seðlabankinn hefði refsivald ef einhverjir hlutar myntsamstarfsins eða ríki sem ættu aðild að því gengju ekki í takt eða færu ekki að þeim skilyrðum sem peningastefnan setti ríkjunum. Við sjáum núna hvaða afleiðingar slíkt hefur í för með sér.

Ég ítreka: Þessi mynd er ekkert svart/hvít. Það eru alls kyns núansar í henni og alls kyns hliðar á þessum málum sem er vert að ræða. Þess vegna finnst mér þessi umræða að mörgu leyti hafa verið mjög góð og varpað ljósi á ýmsar víddir sem eru fólgnar í þessum málum.