145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:30]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er merkilegt hvað þessi umræða hefur snúist mikið um Grikkland. Við erum ekki að ræða Grikkland. Við erum að ræða Ísland. Ef við ætlum að bera saman Grikkland og Ísland, þá yrðum við að bera saman alla þætti málsins náttúrlega. Það eru allt öðruvísi aðstæður á Íslandi en á Grikklandi. Til að þetta sé allt saman sanngjarnt þyrftum við þá líka að bera saman Ísland og önnur Evrópusambandslönd sem ekki eru í vandræðum og búa við evru. Ég geri kannski þá athugasemd við annars ágæta umræðu, að hún hefur snúist einfaldlega allt of mikið um Grikkland. Margt má segja um það.

Ég greini það að mér og hv. þm. Ögmundi Jónassyni er umhugað um alveg svipaða hluti þegar við ræðum þessi mál. Það er rauður þráður í máli hv. þingmanns að fjármálakerfi getur búið til óréttlæti. Það finnst mér íslenska krónan hafa gert. Mér finnst íslenska krónan hafa flutt auðævi frá hinum mörgu vinnandi til fárra útvalinna. Það hefur hún gert á mörgum áratugum. Mér finnst það líka nauðhyggja að kjaraskerðingarnar sem felast í gengisfellingu krónunnar, síendurteknu, séu nauðsynlegt gjald fyrir atvinnustig. Ég held að þessi þjóð geti vel byggt upp atvinnu án þess að greiða fyrir það með kjaraskerðingum. Við erum út af fyrir sig að fjalla um svipaða hluti. Við viljum réttlátt fjármálakerfi sem hyglir fjöldanum.

Ég kem hins vegar hingað upp í andsvar til að svara spurningu um Tobin-skatt, en ég fer meira yfir það í síðari hluta svars míns. Ég get sagt að mér finnst það alls ekki útilokað, en mér finnst hins vegar vera ein lykilspurning varðandi það: Hversu hár yrði hann á Íslandi? Vegna þess að ef þetta er stjórntæki til að reyna að vernda (Forseti hringir.) hagkerfið fyrir óæskilegum fjármagnsflutningum, þá er lykilspurningin sú hvað okkur varðar: Hversu (Forseti hringir.) hár yrði þessi skattur? Rætt er um 30–40% (Forseti hringir.) skatt í tilfelli gömlu búanna sem er eins konar Tobin-skattur. Mundum við þola það?