145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:49]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu og það afrek að draga saman 600 blaðsíðna skýrslu á 15 mínútum, draga saman kjarnann úr skýrslunni. Það er margt gott í þessari skýrslu. Þegar hún kom út árið 2012 var hún mjög vel unnin og gagnlegt rit sem ég las spjaldanna á milli og ég get tekið undir margt sem þar kemur fram. Mér fyndist kannski áhugavert að vita, eftir að árin 2013, 2104 og 2015 eru liðin hjá og evrukreppan hefur náð að festa sig í sessi og er enn jafn óleyst og hún var, hvort hv. þingmaður sé ekki sammála mér um að áhugavert væri að Seðlabankinn gerði viðauka.

Það væri áhugavert að vita hvort það er enn sjónarmið Seðlabankans að líta á aðild að því vandamáli sem myntbandalagið er — sem nóbelsverðlaunahagfræðingar eins og Stiglitz og Krugman og Thomas Piketty, einn mest lesni hagfræðingur í dag, kalla yfirleitt skrímsli, mistök, rót vandans — sem lausn á viðfangsefnum okkar. Er ekki betra að við reynum að leysa okkar vandamál með öðrum aðferðum?

Ég kann mjög vel að meta þann hug sem fylgir þarna máli. Ég held að það sé nauðsynlegt að ræða fyrirkomulag gengismála, hver gjaldmiðillinn er og gera það reglulega. Ég er ekkert viss um að það sé verkefni sem við í þinginu eigum að færa ríkisstjórninni. Ég held að hún leysi það ekkert eða einhver nefnd úti í bæ.

Við sitjum hér með skýrslu upp á 600 blaðsíður sem færustu peningasérfræðingar þjóðarinnar hafa samið. Ég held að það þurfi í sjálfu sér engu að bæta við það öðru en þessari viðbót: Hvað höfum við lært til viðbótar af óförum þessa myntbandalags? Og er einhver lausn í sjónmáli þar? Er yfirleitt óhætt að láta sig dreyma um að ganga inn í þennan vanda?