145. löggjafarþing — 16. fundur,  6. okt. 2015.

framtíðargjaldmiðill Íslands.

5. mál
[19:52]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort kalla eigi það gjaldmiðilskreppu eða myntbandalagskreppu, en það er kreppa sem felst í því að fólk og hagkerfi með mjög ólíkar þarfir, ólík hagkerfi, ólíkar þarfir fyrir gengi og vexti, er að nota sama gjaldmiðilinn, sama seðlabankann í raun og það gengur ekki vel. Það kemur í veg fyrir að hagkerfi sem verður fyrir áfalli, dýru áfalli eins og Grikkland — væntanlega eru rætur þess af ýmsum toga, manngerð áföll eða utanaðkomandi.

Áfallið byrjar með því að Grikkir ganga inn í myntbandalag á of sterku gengi, of sterku skiptigengi. Nánast sama dag verður Grikkland ósamkeppnishæft. Störfin byrja að flytjast úr landi, það koma mjög lágir vextir. Fasteignabóla og verkefnabóla byrja í landinu, allt of mikill aðgangur að ódýru lánsfé. Það verður ofris í hagkerfinu og síðan gríðarlegt hrun þegar vextir fara að hækka á mörkuðum. Ég mundi segja að hluti af vanda Grikklands sé að hafa gengið í myntbandalagið. Síðan kemur myntbandalagið í veg fyrir að Grikkland geti náð vopnum sínum, að það geti aðlagast eins hratt og það hefði getað hefði það haft þennan gengissveigjanleika.

Um leið og áfallið dynur á þá byrjar fjármagnsflótti frá Grikklandi. Allir sem vettlingi geta valdið flytja evrurnar úr landi. Eftir situr launafólkið með hagkerfi sem hefur skroppið saman um 20%. Skuldirnar eru enn í evrum, hafa ekki lækkað neitt, gætu alveg eins verið með verðtryggðar íslenskar krónur. Launin hafa lækkað um 20%, fasteignaverð um 20%. Atvinnuleysi hefur aukist gríðarlega, er 50% meðal unga fólksins. Þetta ástand varir árum saman. Ríkið þarf að selja eignir til þess að geta fjármagnað bankana sem eru einkabankar, þeir eru orðnir uppiskroppa með peninga. Seðlabanki myntbandalagsins krefst veða, að sjálfsögðu. Og ekkert af þessum peningum staldrar við í Grikklandi heldur er tekið út jafnóðum og sent úr landi. Allir sem eiga einhverja peninga senda peningana úr landi.

Þetta er raunveruleikinn. Þetta er vandamál Evrópska (Forseti hringir.) myntbandalagsins sem er algjörlega óleyst enn. Ég held að (Forseti hringir.) það sé engin ástæða til þess að flýta sér þarna inn fyrr en við sjáum hvernig þessu vandamáli lyktar.