145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Vikuna 12.–17. október næstkomandi stendur Ungmennaráð UNICEF á Íslandi, með stuðningi nemendafélaga framhaldsskóla út um allt land, fyrir átakinu Heilabrot. Markmið átaksins er að vekja athygli á úrræðaleysi í geðheilbrigðismálum barna og unglinga og vinna gegn fordómum. Ef til staðar væri viðeigandi þjónusta fyrir börn með geðraskanir væri hægt að koma í veg fyrir óþarfa þjáningu, vanlíðan, brottfall úr framhaldsskóla, örorku og sjálfsvíg. Börn með geðraskanir eiga rétt á stuðningi og tafarlausri hjálp við hæfi.

Staðan í þessum málaflokki er sú að 13–22% barna og ungmenna þurfa hjálp vegna geðraskana á hverjum og einum tíma, en einungis 20% þessara barna fá þá hjálp sem þau þurfa. Tæplega ein af hverjum fjórum stúlkum í 9. bekk í Breiðholti skimast yfir viðmiðunarmörkum fyrir kvíða og þunglyndi. Biðlistar í geðheilbrigðiskerfinu eru allt of langir. Barn með ADHD eða ADD þarf til dæmis að bíða í 12–16 mánuði eftir greiningu og nánast ómögulegt er að fá tíma hjá barnageðlæknum, sérstaklega fyrir börn á landsbyggðinni.

Einkenni geðraskana koma í 50% tilvika fram hjá börnum fyrir 14 ára aldur. Í 75% tilvika fyrir 25 ára aldur. Sjálfsmorð er helsta dánarorsök ungra karlmanna á Íslandi.

Virðulegi forseti. Ástandið er óásættanlegt og ungmennaráðið krefst þess að stjórnvöld grípi til aðgerða strax sem er sjálfsögð krafa.

Mig langar einnig að minna á það að á laugardaginn, þann 10. október, verður alþjóðageðheilbrigðisdagurinn haldinn víðs vegar í heiminum. Dagurinn er mikilvægt tækifæri til að hvetja okkur öll til að vinna að því að efla forvarnir og aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, ekki síst fyrir börn og ungmenni. Aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu í heilsugæslunni, eins og heilbrigðisráðherra boðar, er í takt við stefnu Bjartrar framtíðar og fögnum við hverju skrefi í þá átt. Brýnt er að efla hvers konar forvarnir geðheilbrigðisvanda á vettvangi heilsugæslunnar og þá er sérstaklega brýnt að fræða og styðja foreldra ungra barna.

Ég tek síðan undir þau gleðitíðindi, og fagna þeim, sem hv. þm. Karl Garðarsson minntist á hér í fyrstu ræðu.


Efnisorð er vísa í ræðuna