145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Algengustu hagvísar sem miðað er við þegar staða efnahagsmála er metin eru í raun jákvæðir; minnkandi atvinnuleysi, hátt atvinnustig, hagvöxtur er mikill og meiri en víðast hvar, skuldir fara almennt lækkandi og eftirsóttur verðstöðugleiki hefur síðast en ekki síst verið viðvarandi.

Vöxtur samhliða stöðugleika er inntak ríkisfjármálaáætlunar til næstu ára og því er ekki óeðlilegt að við stöldrum við nú þegar hagkerfið er að hitna og sá slaki sem felst í ónýttum framleiðsluþáttum eins og vinnuafli er horfinn; að við lítum til markmiða áætlunar um að viðhalda stöðugleika samhliða hagvexti, að við greinum hvað felst í ábyrgri stjórn efnahagsmála. Það er mikilvægt að skila ríkissjóði áfram með afgangi sem kallar á forgangsröðun fjármuna og sparnað í ríkisrekstri hvar sem er. Á sama tíma verðum við að horfa til stjórnunar peningamála. Þar hefur Seðlabanki Íslands því hlutverki að gegna að vinna að lögbundnu verðbólgumarkmiði.

Háir kjarasamningar og kröftugur vöxtur hagkerfisins og vaxandi verðbólguvæntingar munu setja aukinn þrýsting á Seðlabankann að hækka hér vexti á komandi mánuðum. Aðhald og skynsamleg ráðstöfun aukinnar kaupgetu og samtakamáttur hins opinbera og viðskiptalífs og verslunar um að halda aftur af verðlagshækkunum getur haft áhrif.

Ég ætla hér í lokin, með leyfi forseta, að vitna til orða hagfræðingsins Lars Christensens, sem áður hefur komið við sögu þegar kemur að efnahagslegri stöðu þjóðarinnar og greiningu. Hann lýkur ágætri greiningu á visi.is í dag á þessum orðum, með leyfi forseta:

„Ísland er nú eitt örfárra landa í Evrópu með kröftugan vöxt á nafnvirði eyðslu og í þörf á aðhaldi í peningastefnu. (Forseti hringir.) Vel af sér vikið. Nú skulum við passa upp á að endurtaka ekki fyrri mistök.“


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna