145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Það eru vissulega gleðilegt tíðindi að þeir sem þurfa lyf vegna lifrarbólgu C fái þau lyf sem þeir þurfa og eru við hæfi.

En mig langar að ræða lyfjamálin í víðara samhengi. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 2016 lækkar framlag til S-merktra lyfja um 210 milljónir milli ára vegna spár um gengisforsendur. Á móti kemur 3% raunhækkun til að mæta kostnaðaraukningu vegna magnaukningar. Í nýjasta tölublaði Læknablaðsins velta læknarnir Gerður Gröndal og Gunnar Bjarni Ragnarsson því fyrir sér hvort þessi upphæð dugi til að veita fullnægjandi lyfjameðferðir á næsta ári í grein undir fyrirsögninni Verða ný lyf í boði fyrir sjúklinga árið 2016?

Á undanförnum árum hafa orðið miklar framfarir í lyfjameðferðum. Það hefur aukið lífslíkur, bætt lífsgæði og haldið fólki vinnufæru. Hér á landi eru dýr lyf notuð af varfærni, eftirlit er mikið og Landspítalinn óskar aðeins eftir lyfjum með ótvírætt gildi. Hætta er á að vegna lágra fjárheimilda verði ekki hægt að taka í notkun ný lyf sem þó eru í notkun í nágrannalöndunum.

Eftir breytingar, sem gerðar voru á síðasta þingi, er umsýsla með S-merktum lyfjum ekki lengur bara á hendi Landspítala heldur má afgreiða sum S-merkt lyf í hvaða apóteki sem er. Læknarnir benda á að Lyfjastofnun stefni á að leggja S-merkinguna niður á sumum lyfjum og að sú breyting geti leitt til kostnaðarauka án þess þó að lyfjameðferðir aukist eða batni.

Við, sem fjárveitingavaldið, verðum að taka svona ábendingar alvarlega. Ef Ísland ætlar að hafa heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða (Forseti hringir.) verður að hafa fjármagn og fyrirkomulag í samræmi við það.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna