145. löggjafarþing — 17. fundur,  7. okt. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 25/2015 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

191. mál
[15:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 25/2015, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun, og fella inn í samninginn framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar um rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur sem nánar er tilgreint í tillögunni sjálfri.

Í framkvæmdartilskipuninni er komið á fót rekjanleikakerfi fyrir flugeldavörur sem er ætlað að auka öryggi notenda flugeldavara og almennings með því að auðgreina framleiðendur og innflytjendur slíkra vara.

Í tilskipuninni er uppbyggingu rekjanleikakerfisins lýst og kveðið á um merkingar flugeldavöru. Framkvæmdartilskipunin kveður nánar á um framkvæmd eldri gerðar sem þegar hefur verið tekin upp í EES-samninginn. Innleiðing þeirrar gerðar kallaði á breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998, sem gerð var með lögum nr. 77 frá 9. júlí 2015 sem jafnframt myndar lagastoð fyrir innleiðingu framkvæmdartilskipunarinnar sem hér um ræðir.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallaði á lagabreytingu hér á land var hún tekin upp í EES-samninginn með stjórnskipulegum fyrirvara. Þingsályktunartillaga þessi er lögð fram þar sem lög nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, kveða á um að stjórnskipulegum fyrirvara beri að aflétta með þingsályktun. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.