145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

stöðugleikaframlög.

[10:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Ég lít þá svo á, út frá því sem kom fram í máli hans, að hann sé ósammála því sem Indefence-hópurinn hefur haldið fram.

Indefence-hópurinn hefur sent hv. þingmönnum efnahags- og viðskiptanefndar bréf þar sem þessi hugmynd er meðal annars reifuð. Hún byggir á, samkvæmt upplýsingum frá félögum í Indefence, upplýsingum frá slitabúunum; þetta eru þeirra hugmyndir að stöðugleikaframlagi. Ég skil þá hæstv. forsætisráðherra sem svo að hann taki ekki undir þá túlkun.

Hæstv. forsætisráðherra segir hér: Ég stýri ekki samráðsnefnd um losun hafta. En hæstv. forsætisráðherra er verkstjóri ríkisstjórnarinnar, höfuð ríkisstjórnarinnar, og þetta er risastórt mál. Hér hafa allir flokkar talað á þann veg að um það þurfi að tryggja sátt.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Mun hann sjá til þess að nefndin fundi áður en nokkrar ákvarðanir verða teknar? Getum við treyst því að hún verði boðuð til fundar að undirlagi hæstv. forsætisráðherra?