145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

stöðugleikaframlög.

[10:38]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Af því að hv. þingmaður nefndi áhyggjur nokkurra meðlima úr hinum svokallaða Indefence-hópi af upplýsingaskorti þá ítreka ég það sem ég sagði áðan að það er mikilvægt að sem mestar upplýsingar séu veittar og að sem mestar skýringar fylgi þeim upplýsingum. En ég minni hv. þingmann líka á að meðlimir Indefence-hópsins hafa starfað að þessum málum undanfarna mánuði og undanfarin ár og ég efast ekki um að það starf mun skila góðum árangri.

Ég mun ræða við starfandi fjármálaráðherra og hef reyndar þegar gert það á milli svara. Hann er sammála mér um að æskilegt sé að hafa sem mest samráð um þetta og veita sem mestar upplýsingar. Ég tel því óhætt að fullyrða að hv. þingmaður og aðrir hv. þingmenn geti átt von á fundi í umræddri nefnd áður en langt um líður.