145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

efnahagsleg áhrif stöðugleikaskilyrða.

[10:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ekki þannig að menn hafi verið að fylgja þeim prótókoll sem ég fór yfir áðan og kveðið er á um í löggjöfinni. Ráðherra sem fer með málaflokkinn hefur ekki mætt fyrir nefndina og kynnt fyrir henni efnahagslegar afleiðingar stöðugleikaskilyrðanna og eingöngu hefur verið fjallað um þetta með almennum hætti í samtölum við Seðlabankann í nefndinni. Það þarf að tryggja að ferlinu sé fylgt. Og þegar fólk hefur það á tilfinningunni, eftir að hæstv. ríkisstjórn slengir upp tölum eins og 1.200 milljarðar, 850 milljarðar og um allt það sem á að fara að koma út úr þessum stöðugleikaskatti, að síðan sé verið að gera eitthvað allt annað — sem er algerlega augljóst og Indefence hefur bent ágætlega á og dregið fram — þá verða menn að upplýsa hvað er í gangi. Menn fara ekki þá leið að hér verði lagður á stöðugleikaskattur heldur eru þeir að fara aðrar leiðir. Þá ber stjórnvöldum að kynna það vel og við eigum að hlusta á varnaðarorð sem menn hafa haft uppi á undanförnum vikum og hlýða á það sem (Forseti hringir.) menn segja um það. Það verður að fara að upplýsa um málið því það er ekki hægt að gera það með jafn almennum hætti og gert hefur verið hingað til.