145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

fjárframlög til rannsókna í ferðaþjónustu.

[10:47]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Ég get nánast tekið undir hvert orð. Það er einmitt það sem við urðum fljótlega áskynja í stefnumótunarvinnunni, sem við kynntum núna síðastliðinn þriðjudag, þegar við vorum að greina stöðu ferðaþjónustunnar að það vantaði traustan grunn. Við vorum ekki með áreiðanleg, tímanleg, alþjóðlega samanburðarhæf gögn til þess að geta sett okkur markmið. Þess vegna er það eitt af forgangsverkefnum sem við setjum okkur í þessari stefnumótunarvinnu.

Það er líka rétt sem hv. þingmaður bendir á að rannsóknirnar liggja víða. Þingmannanefnd, menntamálaráðuneytið, ég get nefnt það að hæstv. forsætisráðherra fer með málefni Hagstofu Íslands. Þar fara fram gríðarlega mikilvægar rannsóknir. Við erum með sérstakan samning við Hagstofuna um svokallaða ferðaþjónustureikninga sem lagðir voru af hérna á árunum eftir hrun. Við endurvöktum þá og leggjum til að því starfi verði haldið áfram og það verði unnið sem hluti af ferðaþjónustureikningi. En þetta viðfangsefni er kannski klassískt dæmi um það af hverju við ákváðum að fara þá leið sem við gerum og leggjum til í vegvísinum sem við kynntum á þriðjudaginn. Við verðum að vinna þetta þverfaglega, öll ríkisstjórnin, greinin sjálf og sveitarfélögin verða að koma sameiginlega að þeim viðfangsefnum sem snerta ferðaþjónustuna og áður en við getum sett ákveðnar upphæðir í fjárlögum til rannsókna þá verðum við að vita í hvaða rannsóknir við viljum eyða og hvaða rannsóknir er verið að gera núna. Það verður eitt af fyrstu verkefnum sem við munum fara í.

Ég segi það hins vegar að ég mun beita mér fyrir því og leggja til síðar í fjárlagagerðinni að við komum inn með einhver framlög til rannsókna (Forseti hringir.) vegna þess að ég tek algjörlega undir með hv. þingmanni að þær eru gríðarlega mikilvægar.