145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

[10:56]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt, ljúft og skylt að svara þessu. Tildrög þeirra ferða sem hv. þingmaður vísar hér til eru þau að á undanförnum missirum og árum hefur fjöldi kínverskra ráðamanna, sem starfa á því sviði sem fellur undir mennta- og menningarmálaráðuneytið, verið hér í vinnuheimsókn. Síðan barst boð til ráðuneytisins frá kínverskum stjórnvöldum um að þessar vinnuheimsóknir yrðu endurgoldnar. Skipuð var sendinefnd. Í henni, ásamt mér sem ráðherra, áttu sæti embættismenn úr ráðuneytinu, þrír rektorar háskóla, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, ásamt forstöðumanni Rannís. Fundað var með fjölda ráðherra og vararáðherra, forstöðumönnum vísindastofnana, háskólastofnana og annarra sem endurspegla samsetningu þessarar sendinefndar.

Hitt er alveg hárrétt að á sama tíma voru í Peking fulltrúar frá fyrirtækinu Orku Energy, sem um hefur verið rætt hér, og einn fulltrúi frá fyrirtækinu Marel. Fleiri spurningar hafa verið bornar fram sem mér gefst þá kannski tækifæri til að ræða síðar.

Varðandi veiðiferð í Vatnsdalsá og kostnað við hana vil ég segja við hv. þingmann að ég hef í mínum fórum kvittun fyrir mínum greiðslum.