145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

fjárhagsvandi tónlistarskólanna.

[11:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir áskorun hv. þingmanns um að svara bara með jái eða neii þá verð ég að segja að ég ætla mér að nota þessar mínútur sem ég hef til að reifa málið að nokkru.

Það er hárrétt sem hv. þingmaður nefnir, í gildi eru lög í landinu um verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Það kemur alveg skýrt fram í þeim lögum að ábyrgðin á þessum málaflokki liggur hjá sveitarfélögunum. Ríkið aftur á móti gerði það árið 2011, þá undir forustu þáverandi hæstv. menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, að bæta við fjármagni þar. Viðbrögð Reykjavíkurborgar voru þau að draga til baka allt sitt fjármagn sem hafði farið til þessara mála á þeim tíma og afleiðingar þeirrar ákvörðunar eru nú komnar í ljós þar sem er stórkostlegur rekstrarvandi tónlistarskólanna í Reykjavík.

Hvað varðar meint samkomulag sem átti að hafa verið gert í sumar og spurt hvort ég ætli að standa við, þá vil ég bara benda hv. þingmanni á það að ekkert slíkt samkomulag var gert. Fundir voru haldnir þar sem mættu annars vegar fulltrúi frá Reykjavíkurborg og hins vegar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og á þeim fundum sátu líka, alveg hárrétt, með áheyrnarstöðu áheyrnarfulltrúar frá fjármálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti. Ekkert samkomulag hefur verið undirritað og þar af leiðandi er ekki uppi sú spurning að standa við eitthvert samkomulag sem var gert. Þó að einstakt sveitarfélag komist að þeirri niðurstöðu að það vilji gjarnan að ríkisvaldið leysi þau vandamál sem upp á það standa þá er það ekki þannig gert að búinn sé til einhvers konar listi eða drög að samkomulagi og sagt: Heyrðu, þið eigið að standa við það, þegar engin undirskrift er þar undir og ekkert samkomulag hefur verið gert, virðulegi forseti. Þetta er alveg fráleitur málatilbúnaður. Það var ekki, eins og hv. þingmaður sagði áðan, undirritað í vor — ég hjó eftir þeim orðum hv. þingmanns — það var ekkert samkomulag undirritað.

Af því að spurt var hvort ég vildi styðja við málið hef ég sagt alla tíð: Já, ég vil gjarnan gera það en það þarf þá að gera það þannig að ekki myndist nýtt vandamál aftur næsta ár. Það skiptir miklu máli til dæmis að Reykjavíkurborg falli frá nálgun sinni hvað þetta varðar. Hitt sem ég mun koma að í seinna svari mínu, hvað varðar kynningu á því framtíðarfyrirkomulagi sem hv. þingmaður kallaði eftir, þá vil ég (Forseti hringir.) nefna það við hv. þingmann að ég átti fund í morgun með allsherjar- og menntamálanefnd þingsins þar sem farið var sérstaklega yfir það og ég fór yfir þær hugmyndir mínar um það framtíðarskipulag sem gæti verið þar á ferðinni.