145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

fjárhagsvandi tónlistarskólanna.

[11:02]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég bið afsökunar ef ég hef sagt að undirritað hafi verið samkomulag, ég trúi náttúrlega ráðherranum að það hafi ekki verið gert. En við erum sum þannig innréttuð að við teljum að ef samkomulag sé gert þá sé það nú ekki endilega undirskriftin sjálf sem skipti máli, heldur það að samkomulag hafi verið gert og við slíkt samkomulag ber að standa. Ég vil segja að mér finnst ráðherrann hafa þann einstaka hæfileika að gera alla hluti að pólitísku ágreiningsefni. Við erum að tala um vanda tónlistarskólanna í Reykjavík. Það er vandi, sérstaklega fyrir það fólk sem stundar þar nám. Ég treysti því að ráðherrann skilji ábyrgð sína á því að eyðileggja ekki það mikla verk sem unnið hefur verið í tónlistarskólum undanfarin ár. Ráðherrann getur náttúrlega ekkert verið að æsa sig yfir því að ég viti ekki um það að gerð hafi verið grein fyrir þessu í morgun. Hann hefði getað sagt mér það í rólegheitum (Forseti hringir.) og ég hlakka til að fá frekari fregnir af því.