145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

afnám verðtryggingar o.fl.

[11:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forseti var svo elskulegur að upplýsa þingheim um að hann hefði gert heiðarlega tilraun til að kenna hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, formanni fjárlaganefndar, mannasiði. Hann upplýsti að hann hefði gengið bónleiður búðar til og láir honum það enginn.

Vegna þeirrar óskar sem liggur fyrir hjá hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur langar mig að spyrja hæstv. forseta hvort hann hafi líka reynt árangurslaust að kenna hæstv. forsætisráðherra mannasiði. Spurning mín til hæstv. forseta er hrein og bein: Hefur hæstv. forseti beitt sér fyrir því að þingmaðurinn fái uppfyllta eðlilega ósk sína um viðræðu við hæstv. forsætisráðherra um verðtryggingu? Málið er brýnt, ekki síst í ljósi þeirra yfirlýsinga og upplýsinga sem fram hafa komið um mikinn uppgang verðbólgunnar á næstu missirum.