145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

afnám verðtryggingar o.fl.

[11:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki alveg rétt að fundurinn með Isavia hafi verið löngu boðaður. Í svari formanns fjárlaganefndar kemur fram að ekki sé hægt að hringla með fundartíma, hún geti ekki lagt það á starfsmenn nefndarinnar að hringla með fundartíma og lagt það á gesti úti í bæ og annað slíkt, það eru rökin.

Það er rétt að föstudagurinn var frátekinn, það er enginn að draga í efa að föstudagurinn hafi verið frátekinn. Við gerðum hins vegar grein fyrir því, fyrir um það bil þremur vikum, að við gætum ekki setið þennan fund — bæði eru persónulegar ástæður að baki og svo kjördæmisvinna. Mér finnst, þegar þetta snýr að þessu máli sem er ekki akút, það er ekki vegna fjárlaganna sem við erum að fjalla helst um núna, að þetta hefði getað átt sér stað á mánudegi. Það var ekki búið að boða þessa aðila til fundar og því halda rök formanns fjárlaganefndar ekki.

Ég trúi því ekki að þetta sé uppleggið fyrir haustið, að hæstv. forseti segi hér að ekkert sé hægt að gera og þetta sé algjörlega á valdi (Forseti hringir.) formanna nefnda og það sé leyfilegt ítrekað að fara fram yfir venjulega fundartíma sem boðaðir eru og settir á Alþingi.