145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:35]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka frumkvæði hv. þm. Brynhildar Pétursdóttur að þessari umræðu enda er mikið rætt um menningarmál á fundum okkar þingmanna Norðausturkjördæmis í ferðum okkar. Það sést kannski í þessari umræðu þar sem fulltrúar Norðausturkjördæmis virðast vera langfjölmennastir. Þetta er í eðlilegu samhengi við að menningarmál eru byggðamál. Ítrekað hefur komið fram í rannsóknum að menning skiptir máli við val á búsetu auk þess sem menning er mikilvæg í þróun og uppbyggingu samfélaga og atvinnu, svo sem ferðaþjónustu.

Í kringum árið 2000, eins og komið hefur hér fram, voru gerðar grundvallarbreytingar á fjármögnun menningarstarfs á landsbyggðinni. Fjármagni, sem veitt hafði verið til landsbyggðarinnar eftir ýmsum miðstýrðum leiðum, var deilt út á landshlutana í gegnum menningarsamninga og skýr markmið sett fyrir landshlutana og staðbundin umgjörð við útdeilingu fjármagns mótuð. Þessi umgjörð hefur síðan haldið áfram að mótast. Þetta er jákvæð breyting en alveg síðan fyrstu samningarnir voru gerðir hafa fjárveitingar dregist saman. Auk þess sem dregið hefur úr fjármögnun til menningarmiðstöðva á landsbyggðinni er Menningarsjóður félagsheimila ekki starfræktur lengur en hann hafði það hlutverk að styrkja meðal annars ferðir listamanna frá höfuðborginni. Reyndar finnst enn þá umsóknareyðublað í þann sjóð á netinu en án alls samhengis. Menningarborgarsjóður er horfinn; hann hafði það hlutverk að efla menningarsamskipti milli landsbyggðar og höfuðborgar. Mig langar að spyrja ráðherra hvort hann getur eitthvað upplýst mig um stöðu þessara tveggja sjóða, hvort þeir hafa verið lagðir niður formlega eða hvort þeir hafa bara horfið af yfirborðinu.

Í seinni ræðu minni kem ég inn á fleira sem máli skiptir.