145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:44]
Horfa

Erna Indriðadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mér finnst ástæða til að benda á það hér að það er ótrúlega blómlegt menningarlíf víða á landsbyggðinni, en ég tek samt undir áhyggjur margra þingmanna varðandi fjárframlög til menningarmála þar vegna þess að auðvitað eigum við að búa við jafnræði og þeir sem búa á landsbyggðinni eiga að hafa sama aðgang að menningu og aðrir.

Ég hef ekki síst áhyggjur af aðgangi þjóðarinnar að menningu í höfuðborginni. Ég er ekki viss um að margir færu í Hörpu ef það kostaði 60 þús. kr. á mann að fara þar á tónleika eða óperusýningu, en par frá Egilsstöðum þarf að borga það fyrir að skella sér á óperusýningu í Hörpu.

Margar menningarstofnanir, sem allir landsmenn greiða til með sköttum sínum, eru í Reykjavík, eðlilega. En það er ljón í veginum ef fólk á landsbyggðinni ætlar að notfæra sér það sem þær bjóða og það er innanlandsflugið og háu fargjöldin þar sem hv. þm. Ingibjörg Þórðardóttir lýsti svo vel hér í gær.

Það kostar orðið svipað að fljúga frá Íslandi til Óslóar og frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Venjulegt par á Egilsstöðum sem langar að skreppa til höfuðborgarinnar, t.d. á óperuna Rakarann frá Sevilla sem nú á að fara að sýna í Hörpu allra landsmanna, þarf að greiða um 126 þús. kr. fyrir það eða 63 þús. kr. fyrir manninn. Það munar um minna og mest munar þarna um flugfargjaldið til Reykjavíkur sem er 71 þús. kr. fyrir tvo, og þetta er ekki dýrasta fargjaldið heldur það sem er bókað með þriggja vikna fyrirvara. Í þessu dæmi er reiknað með því að parið fái sér ódýrustu gerð af bílaleigubíl og gisti hjá ættingjum.

En það gæti orðið auðveldara fyrir Austfirðinga að sækja menningarviðburði í London en í Reykjavík á næstu missirum því að þær gleðifréttir bárust í gær að bresk ferðaskrifstofa ætlaði að hefja beint flug á milli London og Egilsstaða í vor. Þannig verður aðgangur Austfirðinga að breskum þjóðmenningarstofnunum líklega betri en að þeim íslensku.

Herra forseti. Er ríkisstjórnin að gera eitthvað til að jafna þessa aðstöðu? Er hún að gera eitthvað til að gera þeim sem búa úti á landi kleift að njóta þeirrar menningar sem höfuðborgin hefur upp á að bjóða?