145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

menning á landsbyggðinni.

[11:53]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ítreka þakkir mínar til málshefjanda og til þeirra hv. þingmanna sem hér töluðu. Það er alveg hárrétt, það er umhugsunarefni að einungis konur hafa tekið þátt í þessari umræðu. Hér var nefnt hvort það gæti verið vegna þess að þetta flokkast undir það sem kallað er mjúk mál. Ég ætla að leyfa mér að mótmæla því þó að ég skilji vel hug þess þingmanns sem það sagði og skilji alveg hvað lá þar að baki. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við höldum því nú á lofti að svo er ekki. Þetta skiptir alveg gríðarlega miklu máli fyrir uppbyggingu samfélags okkar, bæði á landsbyggðinni og í landinu öllu. Menningarmál eru nefnilega ekkert mjúk mál, þau eru mjög alvarleg og skipta miklu í efnahagslegu og félagslegu tilliti í landinu. Það er því ágætishugmynd að taka aðra umræðu um þetta eins og hv. þingmaður og málshefjandi nefndi. Ég tel að við þurfum að ræða meira um menningarmál í þinginu almennt.

Það voru nokkrar spurningar sem var beint til mín í umræðunni. Ég biðst velvirðingar á því að ég mun sennilega ekki ná að svara þeim öllum á þeim tíma sem ég hef. Mig langar að nefna varðandi það sem kom frá málshefjanda varðandi söfnin og þá stefnu sem er í safnamálum, hvaða söfn fá viðurkenningu o.fl., þá er alveg skýr stefna um það og starfsemi safnaráðs og annarra aðila sem þar koma að. Það liggur alveg fyrir hvaða skilyrði söfn þurfa að uppfylla til að fá viðurkenningu o.s.frv.

Enn og aftur snýr þetta að fjármagni. Eins er líka hvað varðar áhugaleikhúsin, það fara fjármunir til þeirra, og líka til starfsemi þeirra félagasamtaka. Ég hef átt fund með þeim og þeir hafa bent á að það vantar þar fjármuni líka.

Ég ítreka það varðandi lykilstofnanir okkar allra, hvort sem menn búa úti á landi eða í borginni, þá er til dæmis Þjóðleikhúsið og Sinfóníuhljómsveitin sameign okkar allra hvað það varðar. Ég vil líka benda á, út af þeim ummælum sem hér komu fram varðandi kostnað við að sækja slíka atburði, að það er þó jákvætt hjá Sinfóníuhljómsveitinni (Forseti hringir.) að gera samninga við símafyrirtækin um myndræna dreifingu á atburðum (Forseti hringir.) sem þar eru. Ég vona að það verði upphaf þess að það verði almennt sem mest hægt að (Forseti hringir.) nálgast slíka menningarviðburði í myndrænu formi um land allt.