145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[11:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að taka undir ósk hv. þm. Ögmundar Jónassonar um að heilbrigðisráðherra verði hér í húsi og helst í þingsal að hlusta, og ekki bara það heldur taki líka þátt í umræðu með okkur. Þetta er eitt af forgangsmálum þingflokks Sjálfstæðisflokksins og hann er partur af þingflokknum. Þótt hann sitji í ráðherrastól er hann líka þingmaður og stýrir heilbrigðismálum í landinu. Þar sem við höfum haldið því fram að þetta fari gegn heilbrigðisstefnu landsins teljum við æskilegt að hann komi aftur til umræðna og svari fyrir það.

Það eru kannski meiri líkur en minni á því að þetta mál fari til nefndar og verði rætt þar en mér finnst mikilvægt að ráðherrann eigi orðastað við okkur um svo mikilvægt mál sem áfengismál eru. Ég sé að framsögumaður er klár í slaginn og ég hef þá trú að við getum átt góð orðaskipti (Forseti hringir.) í dag en það skiptir máli að þeir sem höndla með afleiðingar málsins, sem er heilbrigðisráðherra, séu hér til svara.