145. löggjafarþing — 18. fundur,  8. okt. 2015.

ósk um viðveru heilbrigðisráðherra.

[12:07]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í ljósi orða síðasta ræðumanns benda á að dagskrárvaldið er í höndum forseta. Það er ekki í höndum stjórnarandstöðunnar. Ég mundi gjarnan óska eftir því, eins og hér hefur komið fram, að stjórnarmeirihlutinn kæmi hingað og ræddi þessi mál, þessi sem og fleiri.

Af því að hér var vitnað til máls sem var á dagskrá í fyrradag þá var það nú einn af þeim sem ég sé að er kominn hér á mælendaskrá, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, sem leiddi þá umræðu svolítið, um gjaldmiðilsmálin, sem var bara hið besta mál og upplýsti mig alla vega töluvert um það mál. Ég var ekki mjög flink í því og mér fannst þetta ágætisumræða.

Það er þannig að umræða leiðir af sér aukinn skilning. Þrátt fyrir að hv. þingmanni finnist að búið sé að ræða þetta mál í þaula er það kannski bara í ljósi þess að fólki er mikið niðri fyrir og finnst þetta mál alvarlegt, er mjög ósátt við það, sem það leyfir sér að ræða um það. Það er líka lýðræði.

Ég hvet sérstaklega þingmenn Framsóknarflokksins, sem ég veit að margir hverjir eru ekki sáttir við þetta mál, að taka hér þátt í umræðunni og segja okkur hvers vegna.